
Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir hefur verið ráðin skólastjóri Hamranesskóla í Hafnarfirði frá 1. nóvember næstkomandi.
Hún er menntaður kennari og hóf nýverið meistaranám í forystu og stjórnun. Hún hefur starfað lengur en 20 ár í grunnskóla sem kennari, deildarstjóri, aðstoðarskólastjóri og skólastjóri síðasta vetur í Hraunvallaskóla.
Guðbjörg var einnig ein besta körfuboltakona Íslands á 20. öldinni og var síðar kjörin formaður KKÍ.
„Sú reynsla nýtist mér vel. Ég er mikil liðsheildarkona og hef haft það að leiðarljósi. Ég lærði mikið á körfuboltastarfinu um hvernig á að vinna saman sem lið, teymi, hópur. Ég mun nýta það óspart,“ segir Guðbjörg. „Ég hef þann draum að allir nemendur taki þátt í íþrótta- og tómstundastarfi af einhverju tagi. Það er samfélagslega gott fyrir alla; fyrir nemendur, foreldra og alla sem búa í samfélaginu. Það er afar stórt tækifæri að fá að gera þetta frá byrjun.“
Guðbjörg hefur brátt störf í þessum skóla sem rúma mun um 450 nemendur. Nú hefst vinna við mótunina og að ráða inn annað starfsfólk við hlið hennar.
„Við byrjum svo að kenna 1.-4. bekk strax næsta haust og stækkum svo skólann smátt og smátt þar til hann kemst í fulla starfsemi.“
Komment