
Algengasta karlmannsnafnið á Íslandi er ennþá Jón, þótt Emil og Jökull hafi tekið toppsætið fyrir nýgefin nöfn á síðasta ári. 4.938 menn heita Jón á Íslandi. Þetta þýðir að 2,5% allra karla á Íslandi heita Jón að fyrra nafni.
Þó þrengir að Jónum. Nafnið kemst ekki á topp tíu yfir vinsælustu nöfnin sem gefin voru í fyrra. Það eru því eldri Jónar sem halda Jónum í sessi.

Aðeins 14 drengir voru nefndir Jón að fyrra nafni í fyrra. Það myndi þýða að það tæki 353 ár að ná upp í tæplega 5.000 Jóna, sem er núverandi Jónafjöldi. Jónar eru því á undanhaldi. Fyrir 20 árum hétu 5.536 Jón.
Tvö drengjanöfn deila toppsætinu yfir vinsælustu nýju nöfnin 2024. Það eru Emil og Jökull. Við svo búið fellur Birnir af toppnum niður í fimmta sætið. Sterkasti nýliðinn er Matthías,sem stekkur úr 41 sæti í fjórða sætið. Styrmir kemur einnig nýr inn á topplistann, sem og Birkir.
Af kvenmannsnöfnum ber Anna enn höfuð og herðar yfir aðrar. Anna tekur annað sætið yfir vinælustu fyrstu eiginnöfn, á eftir Jóni. 4.792 konur bera nafnið sem fyrra eiginnafn. Hún kemst þó ekki á topp 10 lista yfir nafngiftir á árinu 2024. Þar rísa hæst Aþena og Embla, sem báðar bættu við sig 22 nafnberum í fyrra.
Þeim fjölgar þó sem heita Anna. Þær voru aðeins 4.254 fyrir 20 árum. Með áframhaldandi þróun líður ekki á löngu áður en Anna ýtir Jóni úr efsta sætinu yfir vinsælustu nöfn Íslendinga.
Komment