
Það er ekki á hverjum degi sem fyrrum hæstaréttardómarar setjast í sæti kvikmyndagagnrýnanda en það gerðist í dag. Þá skrifaði Jón Steinar Gunnlaugsson færslu um kvikmyndina A Star Is Born, þar að segja útgáfuna sem kom út árið 2018.
„Ég tók mig til og horfði aftur á kvikmyndina „A star is born“ sem gerð var á árinu 2018 og er sýnd á myndveitunni Viaplay. Ég hafði horft á þessa mynd fyrir nokkrum árum. Núna fannst mér hún áhrifameiri en þá,“ skrifaði dómarinn fyrrverandi um Óskarsverðlaunamyndina.
„Meginviðfangsefni þessarar kvikmyndar er sjúkdómurinn alkóhólismi og sú harmræna barátta sem fórnarlömbin þurfa að heyja til ná tökum á honum. Leikarinn Bradley Cooper leikur alkóhólistann Jack Maine og segir myndin frá baráttu hans við þennan illvíga sjúkdóm. Ég sjálfur háði þessa baráttu fyrir rúmlega 46 árum og varð svo gæfusamur að ná tökum á sjúkdómnum og þar með lífi mínu. Ég þekki því á eigin skinni þau viðfangsefni sem Jack Maine þufti að fást við og lýst er í kvikmyndinni. Flest okkar eru kunnug fólki sem hefur þurft að heyja sömu glímu og þarna er lýst með svo trúverðugum og áhrifamiklum hætti. Það stríð getur endað bæði vel og illa eftir mikil átök sjúklingsins við sjálfan sig,“ heldur Jón Steinar áfram.
Hann segir einnig að það auki gildi myndarinnar að tónlistarkonan Lady Gaga, sem hann lýsir sem frábærri söngkonu, leiki í myndinni en hún var einmitt tilnefnd sem besta leikkona í aðalhlutverki á Óskarsverðlaununum og vann fyrir besta lagið.
„Ástæða er til að benda fólki að horfa á þessa kvikmynd, hvort sem um er að ræða virka eða óvirka alkóhólista og raunar einnig aðstandendur þeirra. Í myndinni er með trúverðugum hætti lýst þessari baráttu og er sú lýsing til þess fallin að styrkja þá sem hana þurfa að heyja.“
Komment