
Upplýsingafundur um fjárhagsvanda ullarvinnslufyrirtækisins Ístex var haldinn 14. október. Fyrirtækið hefur, eins og áður hefur komið fram, ekki getað greitt sauðfjárbændum fyrir ullarinnlegg ársins. Kemur þetta fram í frétt Bændablaðsins.
Á fundinum kom fram að ullarverð til bænda lækkar verulega í öllum flokkum á næsta ári vegna stöðunnar.
Fjárfestingar og minnkandi framleiðsla
Gunnar Þórarinsson, stjórnarformaður Ístex, sagði að hluti vandans mætti rekja til fjárfestinga í nýjum tækjabúnaði árin 2023 og 2024. Þær hafi verið gerðar til að mæta aukinni eftirspurn á þeim tíma. Að auki hafi fyrirtækið ekki fengið þá lánafyrirgreiðslu sem það óskaði eftir hjá viðskiptabanka sínum.
Vegna versnandi stöðu hafi Ístex þurft að segja upp fjölda starfsmanna og draga úr framleiðslu til að lækka kostnað.
Greiðsluvandi og hagræðing
Enn er óljóst hvenær hægt verður að greiða bændum, en greiðsluvandinn er sagður tengjast slæmri lausafjárstöðu. Gunnar sagði þó að staðan væri betri nú en síðasta vor, þar sem salan hefði aukist á undanförnum mánuðum eftir mikinn samdrátt í sölu handprjónabands í fyrra og í vor.
Aðgerðir til hagræðingar hafi þegar skilað fyrstu árangri, og vonast fyrirtækið til að þær muni bæta stöðuna enn frekar á komandi misserum. Gunnar sagði að meginmarkmið Ístex nú væri að auka sölu á öllum framleiðsluvörum og finna leiðir til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart bændum. Ef þær aðgerðir dygðu ekki, ætti fyrirtækið enn verðmætar eignir sem mætti selja til að afla nauðsynlegs lausafjár.
Komment