
Nokkur umræða hefur ríkt á samfélagsmiðlum, sérstaklega hjá næringarfræðingum, um drykkinn Hydration Xpress Kids frá íslenska fyrirtækinu Happy Haydrate en sumum þykir óviðeigandi að markaðssetja slíka vöru fyrir börn. Fyrirtækið leggur áherslu a salt- og steinefni á drykkjum sínum.
Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt drykkinn á samfélagsmiðlum er næringarfræðingurinn Guðrún Nanna Egilsdóttir.
Af hverju finnst þér rangt að það sé verið markaðssetja þessa vöru fyrir börn?
„Vegna þess að um er að ræða viðkvæman hóp og það er ekki æskilegt að ýta undir saltneyslu hjá börnum því rétt eins og við þá borða þau almennt of mikið af salti nú þegar. Þau þurfa þar að auki mun minna salt en við, en fyrir börn frá 2 til 9 ára aldri ætti saltneysla að vera takmörkuð við 3–4 grömm á dag. Það er líka aukið álag á nýru barna að losa sig við umfram magn natríums úr blóðinu,“ sagði Guðrún um málið við Mannlíf.

„Þar að auki inniheldur varan dextrósa, sem er sykur, og sítrónusýru svo þetta er ekki tannvænn drykkur,“ heldur næringarfræðingurinn áfram. „Varan inniheldur líka háa skammta af vítamínum sem er þó ekki endilega jákvætt því líkaminn getur bara nýtt ákveðið mikið magn. Rannsóknir sýna þar að auki ekki ávinning þess að drekka eða taka inn einhvers konar fjölvítamín svona almennt, það styður ekki við betri heilsufarsútkomur,“ og segir Guðrún að börn ættu ekki að þurfa fjölvítamín og ættu að fá nóg af næringarefnum úr mat, almennt séð.
En er drykkurinn hættulegur?
„Varðandi börn þá er eins og ég sagði aukið álag á nýru barna að losa sig við umfram magn natríums úr blóðinu. Of mikið salt almennt getur líka hækkað blóðþrýsting sem eykur líkur á hjarta- og æðasjúkdómum og eykur líka hættu á krabbameini í maga. En svo er þetta þá líka í raun bara óþarfa peningasóun og meira er ekki alltaf betra. Íslendingar neyta almennt meira af salti en mælt er með og margir vita ekki af því, en mest af saltinu leynist í tilbúnum matvælum sem við borðum,“ útskýrir Guðrún.
„Meðalneysla karla á salti er að minnsta kosti 9 grömm og kvenna 7 grömm á dag. Ráðleggingar mæla með að fullorðnir neyti ekki meira en 6 grömm af salti á dag. Hægt er að nota sem viðmið að vara sé saltrík ef hún inniheldur 1,25 grömm af salti eða meira í 100 grömmum vöru. Það er mikill heilsufarslegur ávinningur fyrir okkur af því að minnka saltneyslu því þannig má draga úr hækkun blóðþrýstings, en háþrýstingur er einn af áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma.“

Guðrún telur að það mætti mögulega auka eftirlit með vörum sem þessum og þá sérstaklega markaðssetningunni og þá sé tekið skýrt fram fyrir hvaða hóp slíkir drykkir henta.
„Flestum dugir að drekka vatn fyrir vökvajafnvægi í daglegu lífi og við hóflega hreyfingu. Þörf á steinefnadrykkjum er bara við mikið vökvatap. Ef æfing er minni en ein klukkustund og í svalara umhverfi dugar vatn yfirleitt. Ef æfing er yfir 90 mínútur, sérstaklega í miklum hita, eða við endurteknar lotur á dag þá ætti að fara að huga að því að taka inn steinefni. Í mjög mikilli svitamyndun eins og t.d. hjá afreksíþróttafólki þá eru steinefnadrykkir æskilegir. En eins og með svo margt annað þá er þó mjög einstaklingsbundið hvað við svitnum mikið og þarf því hver og einn að meta fyrir sig. Varðandi vöruna fyrir börn þá geta drykkirnir hentað við sérstakt ástand eins og eftir uppköst og niðurgang, eða við mjög mikinn svita eins og áður sagði.“
Guðrún er þó ekki endilega á því að það þurfi að taka vöruna af markaði.
„Ég væri til í að sjá það tekið skýrt fram fyrir hvaða ástand varan hentar eins og við uppköst eða niðurgang og mjög mikla svitamyndun. Það þarf að fara mjög varlega þegar markaðssetningin snýr að börnum.“

Komment