
Íslensk stjórnvöld hafa afhent stjórnvöldum í Kænugarði 25 kæligáma sem notaðir verða til að varðveita líkamsleifar fallinna hermanna en greint er frá þessu í tilkynningu frá yfirvöldum. Gámarnir hafa þegar verið fluttir á réttarmeinadeildir víðs vegar um Úkraínu.
Kæligámarnir koma til með að flýta fyrir flutningum á föllnum úkraínskum hermönnum af vígvellinum og í hendur aðstandenda þeirra og þá gerir slík varðveisla líkamsleifa hægara um vik að bera kennsl á viðkomandi.
„Það var sjálfsagt að koma hratt og vel til móts við beiðni vina okkar með þessum hætti, sem skiptir auðvitað sköpum fyrir aðstandendur og ástvini þeirra sem hafa fallið í þessu blóðuga og ömurlega landvinningastríði Rússa,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
„Þetta er lítið verkefni sem þó vegur þungt, og sýnir um leið styrkleika og sveigjanleika okkar sem smáríkis að geta brugðist við með svo skömmum fyrirvara.“
Samkvæmt yfirvöldum hafa stjórnvöld í Úkraínu þakkað Íslandi fyrir gámana en Ísland hefur stutt við Úkraínu með margvíslegum hætti frá því að ólöglegt innrásarstríð Rússa í Úkraínu hófst í febrúar árið 2022, jafnt í formi mannúðaraðstoðar sem og efnahagsuppbyggingar með varnartengdum stuðningi.
Komment