
Haustönn Háskóla Íslands byrjar á mánudaginn og sama dag tekur gjaldskylda gildi fyrir öll bílastæði háskólasvæðisins. Gjaldskyldan hefur lengi legið fyrir en hún er liður í sjálfbærnistefnu háskólans. „Þessari breytingu er ætlað að bæta umferð og umhverfi á háskólasvæðinu og er gjaldtöku stillt í hóf,“ stendur í tilkynningu á vef HÍ.
HÍ birti í dag leiðbeiningar um gjaldtöku fyrir bílastæðin í Vatnsmýrinni. Fyrstu vikuna gefst starfsfólki og nemendum tækifæri til að kynna sér nýtt fyrirkomulag á bílastæðum háskólans og skrá sig í áskrift án þess að eiga á hættu að fá sekt.
Tveir flokkar bílastæða
Á háskólasvæðinu í Vatnsmýrinni verða tveir flokkar stæða, skammtímastæði (H1) og langtímastæði (H2).
- H1 skammtímastæðin eru næst helstu byggingum, oft þar sem áður hefur verið gjaldskylda. Þar gilda áskriftarkort starfsfólks og nemenda ekki.
- H2 langtímastæðin eru hin bílastæðin á svæðinu og þar getur starfsfólk og nemendur lagt með áskriftarkorti á 1.500 kr á mánuði.

Gjaldtakan (fyrir bæði H1 og H2) er 230 kr á klukkustund á milli 7:00 og 17:00 alla virka dag. Fyrstu 15 mínúturnar eru þó alltaf gjaldfrjálsar. Hægt er að greiða í greiðsluvélum, gegnum Parka appið eða á greiðslusíðu parka.is. Þar má einnig kaupa áskrift að langtímastæðum HÍ og bílastæðum á lóð Landspítalans.
Eftirlit fer fram með númeraplötulestri og ef ekki er greitt fyrir bílastæði fær eigandi bíls rukkun í heimabanka samkvæmt tímagjaldi auk 2.500 kr þjónustugjalds.
Komment