Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu keppti í gær gegn því franska, sem er eitt besta landsliðs heims.
Ísland gerði jafntefli í leiknum en í liði Frakka er að finna ótal stórstjörnur sem spila á talsvert hærra getustigi en flestir leikmenn Íslands. Augljóst var að margir ungir stuðningsmenn Íslands þekkja vel til leikmanna Frakklands og reyndu margir þeirra að komast í snertingu við leikmennina eftir leikinn.
Á meðan leiknum stóð voru einnig ýmsir sem reyndu að senda frönsku leikmönnunum skilaboð þar sem þeir voru beðnir um eiginhandaráritun eða keppnistreyjur.
Það var þó einn ungur stuðningsmaður sem skar sig talsvert úr í metnaði þegar kemur að skiltagerð og vildi ekkert með leikmenn Frakklands hafa. Hann skrifaði falleg skilaboð til Alberts Guðmundssonar, leikmanns Íslands og Fiorentina.
Skrifaði hann meðal annars að Albert væri meiri háttar leikmaður, innan vallar og utan vallar. Þá sagði ungi stuðningsmaðurinn að Albert stjórni leikjum vel. Þá væri það draumur hans að fá áritun frá Albert, mynd með Albert eða treyju Alberts.
Víkingur Óli Magnússon, ljósmyndari Mannlífs, náði mynd af skilaboðunum í heild sinni.


Komment