
Blaðamannafélag Íslands (BÍ) mun ekki setja nafn sitt á lista aðstandenda fjöldafundarins „Þjóð gegn þjóðarmorði“, sem haldinn verður á Austurvelli 6. september vegna ástandsins á Gaza. Þetta staðfestir Freyja Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins, í svari við fyrirspurn.
„Eins og þú þekkir sem blaðamaður skiptir traust almennings til hlutlægni blaðamanna í umfjöllun miklu máli. Blaðamannafélagið hefur því staðið utan við þátttöku í hvers kyns mótmæla- eða kröfufundum, t.a.m. tekur félagið ekki þátt í kröfugöngu launafólks 1. maí þrátt fyrir að vera stéttarfélag. Þetta er í samræmi við stefnu annarra blaðamannafélaga á Norðurlöndunum,“ segir Freyja.
Hún bendir á að stjórn félagsins telji að bein þátttaka BÍ í viðburðinum geti haft neikvæð áhrif á traust almennings til hlutlægni blaðamanna sem fjalla um málið. Því sé nafn félagsins ekki á lista skipuleggjenda fundarins.
Freyja tekur þó fram að BÍ hafi skýra afstöðu í málinu:
„Blaðamannafélag Íslands mun áfram vera afdráttarlaust í afstöðu sinni gagnvart drápum á almennum borgurum og blaðamönnum á Gaza og blaðamenn munu áfram sinna mikilvægu lýðræðislegu hlutverki sínu með því að upplýsa almenning og veita stjórnvöldum aðhald.“
Í kjölfar svars Freyju við fyrirspurn Mannlífs, sendi stjórn BÍ frá sér tilkynningu á heimasíðu sinni þar sem útskýrt er af hverju félagið tekur ekki þátt í fjöldafundinum.
Hátt í 200 félög, samtök og hópar hafa sett nafn sitt við fjöldamótmælin sem fram fara víðsvegar um landið á morgun klukkan 14:00. Má þar meðal annarra nefna Landssamband lögreglumanna, Læknafélag Íslands, Kennarasamband Íslands og Þjóðkirkjan.
Komment