
Niðurstöður nýrrar rannsóknar eru að giftir karlmenn séu 3,2 sinnum líklegri en ógiftir til þess að glíma við offitu, en líkurnar aukast ekki hjá konum.
Rannsóknin var gerð á heilsu 2.405 einstaklinga í Póllandi sem voru að meðaltali fimmtugir að aldri. Aðhvarfsgreiningu var beitt til þess að einangra tengsl milli líkamsþyngdar, aldurs, sambandsstöðu, andlegrar heilsu og fleira.
Offita er samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar BMI-stuðull yfir 30, en þau sem eru yfir 25 teljast glíma við ofþyngd. Samkvæmt rannsókninni jukust líkur á ofþyngd, en ekki offitu, um 62% hjá körlum en 39% hjá konum.
Áður hafa rannsóknir bent til sömu tilhneigingar. Kínversk rannsókn benti til þess að minni hreyfing og meiri neysla mæld í kaloríum jyki líkur á offitu um 2,5% en ofþyngd um 5,2% á fyrstu fimm árunum. Bresk rannsókn sýndi að giftir karlmenn væru að meðaltali 1,4 kílóum þyngri en ógiftir.
62%
Pólska rannsóknin sýnir einnig fram á fylgni milli aldurs og ofþyngdar. Með hverju árinu aukast líkur ofþyngdar hjá körlum um 3% en konum 4%. Þegar kemur að offitu eru árlega auknar líkur 4% hjá körlum en 6% konum. Sem fyrr segir hefur hjónabandið þau áhrif að karlar þyngjast frekar, en konur síður.
Fyrrgreind bresk rannsókn benti til þess að BMI-þyngdarstuðull karla aukist beint í kjölfar brúðkaups, en lækkar skömmu fyrir og eftir skilnað.
Ástæðan er talin vera hvatar karla til að halda sér í formi utan sambands, en einnig aukin kvöð til að neyta matar í félagi við maka og í samhengi við félagslegar skuldbindingar sem stafa af hjónabandinu.
Komment