
Eins og búast mátti við situr Halla Hrund Logadóttir ekki á friðarstóli sem þingmaður, eftir að í ljós kom að hún tók aðra afstöðu en stjórnarandstaðan í mörgum þingmálum.
Þannig ákvað Halla Hrund að taka ekki þátt í málþófi gegn veiðigjaldsfrumvarpinu í sumar og sagðist „styðja markmið ríkisstjórnarinnar“. Heimildin greindi síðan frá því að Halla Hrund hefði verið óvenjulega jákvæð, sagt „já“ í 69,5% atkvæðagreiðslna, nei í 5,2% þeirra og setið hjá í 16,1% þeirra. Flest málanna sem hún studdi eru stjórnarfrumvörp en í mörgum þessara mála sátu stjórnarandstöðuþingmenn hjá eða greiddu atkvæði gegn þeim.

Nafnlaus dálkur Viðskiptablaðsins, Týr, er oft hitamælir á hlýhug hægrisins gagnvart stjórnmálamönnum. Þar er spjótunum nú beint að Höllu Hrund. Týr vitnar í sögusagnir um að Halla hafi viljað í Samfylkinguna, en Kristrún Frostadóttir sett fótinn niður. Þá segir höfundur Týs að Halla sé „best geymd í Samfylkingunni“ og að pólitískt erindi hennar „liggi í samblöndu af stuðningi við skattastefnu Samfylkingarinnar og stefnu Landverndar í orkumálum“. Þá sé „vandfundinn eitraðri kokteill“ en þessi náttúruvernd og auðlindarenta. „Þrátt fyrir að hafa varið nokkrum sumrum í sveit á barnsaldri er skilningur hennar á málefnum landsbyggðarinnar ekki meiri en þetta,“ úrskurðar Viðskiptablaðið og telur að Halla Hrund fæli frá kjósendur Framsóknarflokks á landsbyggðinni.
Vandamálið við kenningu Viðskiptablaðsins er bara að í öllum landshlutum eru mun fleiri óánægð en ánægð með störf stjórnarandstöðunnar, samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Ánægjan með stjórnarandstöðuna nær ekki 18% í neinum landshluta, og óánægjan fer varla niður fyrir 50%. Kjósendur í öllum landshlutum, fyrir utan Vestfirði og Vesturland, eru í meirihluta ánægð með störf ríkisstjórnarinnar. Og að nánast jafnmargir stuðningsmenn Framsóknarflokksins eru óánægðir með stjórnarandstöðuna eins og ánægðir.
Komment