
Heilbrigðisráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra og mennta- og barnamálaráðherra, undirrituðu í gær samning við Rauða krossinn á Íslandi sem felur í sér 25 milljóna króna styrk til reksturs Hjálparsímans 1717.
Styrkurinn gerir tryggir að unnt verður að halda þjónustunni opinni allan sólarhringinn og sinna sálfélagslegum stuðningi fyrir stóran hóp fólks sem þarf á slíkri hjálp að halda.
„Með þessum stuðningi ráðuneytanna þriggja getur Rauði krossinn haldið Hjálparsímanum 1717 áfram opnum allan sólarhringinn svo öll sem á þurfa að halda geti haft samband og rætt sín hjartans mál hvenær sem þeim hentar. Reynslan sýnir okkur að sálfélagslegur stuðningur, líkt og starfsfólk og sjálfboðaliðar 1717 veita, getur skipt sköpum í lífi fólks og jafnvel bjargað lífi þess. Slík þjónusta verður einfaldlega að vera til staðar í okkar samfélagi,“ sagði Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.
Tveir starfsmenn eru í fullu starfi hjá 1717 og átta í hlutastarfi. Um sjötíu sérþjálfaðir sjálfboðaliðar taka einnig vaktir, oftast um tvær í mánuði.
Komment