
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra ávarpaði ráðstefnu um tveggja ríkja lausnina svokölluðu varðandi þjóðarmorð Ísraela á íbúum Gaza í Palestínu.
Utanríkisráðherra áréttaði í ávarpi sínu á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um tveggja ríkja lausnina svokölluðu „að eina raunhæfa leiðin að friði á milli Ísraela og Palestínumanna fælist í því að ríki heims viðurkenndu og raungerðu sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna og að sjálfstætt ríki Palestínu tæki sér stöðu við hlið Ísraelsríkis.“
Sagði utanríkisráðherra einnig að það væri deginum ljósara að núverandi ástand væri algjörlega „óbærilegt og gengi ekki lengur“ og að stíga þurfi það skref til fulls sem svo lengi hefði verið talað um; að „sjálfstætt ríki Palestínu taki sér stöðu við hlið Ísraelsríkis“ og að samið verði um frið til langframa.
Ráðstefnan í New York var haldin á grundvelli ályktunar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá því í fyrra. Hafa frönsk og sádi-arabísk stjórnvöld haft forystu um skipulagningu hennar.
Markmiðið með ráðstefnunni var að marka skref í átt að tveggja ríkja lausninni svonefndu með því að grípa til skilgreindra og raunhæfra aðgerða sem miði að því að til verði tvö ríki hlið við hlið, Ísrael og Palestína, sem lifað geti í friði og samlyndi:
„Þessi ráðstefna hefur sýnt svart á hvítu hverju samstöðumátturinn getur skilað“ segir Þorgerður Katrín og bætir því við að hér hafi „orðið mikil tíðindi og áhrifaríki á borð við Frakkland og Bretland tilkynnt að þau hyggist viðurkenna sjálfstæði Palestínu.“
Þá nefndi hún einnig að í svona hryllilegu máli eins og staðan sé á Gaza hafi hún og ríkisstjórnin beitt Ísrael miklum þrýstingi ásamt öðrum þjóðum:
„Við Íslendingar höfum verið mjög skýr í okkar málflutningi og tekið þátt í þrýstingi og gagnrýni á hendur framgöngu Ísraels á Gaza“ og segir Þorgerður Katrín einnig að það sé „ljóst að það skilar árangri þegar ríki taka sig saman og beita sér af fullri einurð.“
Þorgerður Katrín segir einfaldlega að „ástandið á Gaza og Vesturbakkanum hefur aldrei verið verra“ og þá færir hún það í tal að það sé á „ábyrgð ríkja heimsins að standa saman og leggja sitt af mörkum til að enda hörmungarnar.“
Segir utanríkisráðherra að á þeim vettvangi munu íslensk stjórnvöld „halda áfram að beita okkur af fullum þunga.“
Þorgerður Katrín hitti einnig António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, í heimsókn sinni til New York og kemur það ekki mikið á óvart að ástandið í Mið-Austurlöndum hafi borið á góma „sem og ólöglegt innrásarstríð Rússlands í Úkraínu.“
Ræddu þau Þorgerður Katrín og Guterres „um það starf sem nú fer fram og á að miða að umbótum á starfsemi stofnunarinnar.“
Komment