
Harpa Elín Haraldsdóttir, forstöðumaður Kötluseturs í Vík í Mýrdal, er látin, 45 ára að aldri. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi laugardaginn 1. nóvember.
Harpa fæddist 28. janúar 1980, dóttir Helgu Þorbergsdóttur hjúkrunarfræðings og Haralds Inga Haraldssonar myndlistarmanns. Fósturfaðir hennar er Sigurgeir Már Jensson, heilsugæslulæknir í Vík í Mýrdal. Hún ólst upp í Mýrdalnum en hélt síðar til náms við Háskóla Íslands þar sem hún lauk BA-prófi í mannfræði. Harpa aflaði sér einnig meistaragráðu í alþjóðatengslum frá Institut Barcelona Estudis Internacionals, diplómaprófs í verkefnastjórnun og rekstri og lauk leiðsögumannsprófi frá Leiðsöguskóla Íslands.
Á starfsferli sínum sinnti Harpa fjölbreyttum og ábyrgum verkefnum, meðal annars sem verkefnastjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands í Níkaragva og framkvæmdastjóri GeoThermHydro í Síle. Frá ágúst 2021 stýrði hún Kötlusetrinu í Vík, samfélagsmiðstöð þar sem listir, menning, náttúra og saga Mýrdalsins eru í brennidepli.
Harpa var virkur þátttakandi í menningarlífi heimabyggðar sinnar og á aðalfundi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga fyrr á árinu hlaut hún menningarverðlaun samtakanna fyrir ómetanlegt og óeigingjarnt framlag sitt til menningar og samfélags í Mýrdalshreppi. Í umsögn dómnefndar var henni lýst sem ótrúlegum drifkrafti í samfélaginu, sem með einstökum krafti, jákvæðni og góðvild hélt uppi menningarstarfi og samfélagslegri virkni.
Harpa stóð meðal annars að skipulagningu bæjarhátíða á borð við Regnbogann og Vor í Vík, oft ein eða með lítilli aðstoð, auk þess sem hún skipulagði tónleika og sýningar.
Eiginmaður Hörpu er Pablo Javier Cárcamo Maldonado frá Síle og sonur þeirra León Ingi, fæddur 2015.
Mbl.is sagði frá andlátinu.

Komment