
Rithöfundurinn Hallgrímur Helgason gagnrýnir að Samtök skattgreiðenda hafi sleppt tíu verkum úr afkastaskrá hans í úttekt sem birt var í Morgunblaðinu um helgina. Þar var fjallað um fjölda verka þeirra höfunda sem sótt hafa um listamannalaun.
Í færslu á Facebook frá því í morgun segir Hallgrímur að hann hafi upphaflega haldið að ein bók hefði vantað á listann, en þegar hann fór að uppfæra ferilskrá sína kom í ljós að tíu útgefin verk hefðu gleymst. Hann hafi sent leiðréttingu á blaðamann Morgunblaðsins en fengið yfir sig „mikil reiðikomment frá blaðamanninum“.
„Á lista mínum eru tíu útgefin verk sem gleymdust í útreikningum SS, þar á meðal þrjár þýðingar klassískra leiktexta í bundnu máli, líklega þær snúnustu og mest krefjandi línur sem ég hef sent frá mér,“ skrifar hann.
Hallgrímur bætir við að einnig hafi tvær listaverkabækur og eitt safnrit verið til staðar, sem hann hafi þó ekki talið með „af einskærri tillitssemi við vanstillta menn.“
Hann segir að það sé umhugsunarvert að eingöngu í hans tilfelli hafi verið látið hjá líða að telja upp tíu útgefin verk. „Það sýnir hversu yfirborðskennd þessi blaðamennska er,“ skrifar hann að lokum.
Komment