
Ísraelski herinn réðist um borð í nokkra af bátum friðarflotans sem er á leið til Gaza í þeirri von um að hægt sé að koma hjálpargögnum til íbúa Gaza sem upplifa nú hungursneyð ofan á þjóðarmorð. Sænski aðgerðarsinninn Greta Thunberg er meðal þeirra sem hefur verið rænt af ísraelska hernum.
Að minnsta kosti tuttugu ísraelsk herskip réðust í kvöld um borð í minnst sex skip svokallaðs Frelsisflota, sem var á leið til Gaza-svæðisins með aðgerðasinna, blaðamenn, heilbrigðisstarfsmenn og neyðarbirgðir um borð. Um var að ræða annað skip en það sem íslenska aðgerðakonan Margrét Kristín Blöndal, betur þekkt sem Magga Stína, siglir með en skip hennar kemur ekki á svæðið fyrr en eftir um það bil viku.
Samkvæmt frétt Guardian nálguðust herskipin flotann þegar hann var staddur utan við strendur Egyptalands. Þar tilkynnti ísraelski sjóherinn að skipin væru að sigla inn á hafsvæði sem sætti herkví. Farþegum var sagt að vildu þeir koma birgðum til Gaza yrðu þeir að sigla til hafnarborgarinnar Ashdod í Ísrael.
Að sögn farþega skipaði sjóherinn áhöfnum að stöðva vélar bátanna. Á beinu streymi frá þilförum mátti sjá farþega sitja í hring með björgunarvesti, en útsendingar margra hafa síðan verið rofnar.
Blaðamaður miðilsins Drop Site News, sem var um borð í skipinu sem hersveitirnar fóru um borð í, greindi frá því að farþegum hefði verið skipað að fleygja farsímum sínum í sjóinn. Ritstjórn miðilsins hefur misst samband við blaðamanninn.
Frelsisflotinn samanstendur af um 40 bátum og um 500 þátttakendum, þar á meðal aðgerðasinnum, lögmönnum og stjórnmálamönnum. Meðal þeirra eru Svíinn Greta Thunberg, leikkonan Susan Sarandon og írski leikarinn Liam Cunningham. Magga Stína siglir með öðru skipi sem lagði af stað í gær og er enn langt frá svæðinu sem Ísrael skilgreinir sem „hættusvæði“, þar sem þeir stöðva skip þrátt fyrir að þau séu utan löghelgi ríkisins.
Ísraelska utanríkisráðuneytið staðfesti í yfirlýsingu að nokkrir bátar flotans hefðu verið stöðvaðir og að farþegar þeirra yrðu fluttir til hafnar í Ísrael.
Sendiherra Ísraels hjá Sameinuðu þjóðunum, Danny Danon, segir að aðgerðasinnar um borð í hjálparflotanum til Gaza verði vísað úr landi þegar gyðingahátíðin Yom Kippur lýkur á fimmtudag.
„Við munum ekki leyfa neinum sýndarmennskuviðburði nálægt virku stríðssvæði að brjóta gegn fullveldi okkar. Þeir sem reyndu að fara ólöglega inn á landsvæði Ísraels verða tafarlaust vísað úr landi eftir Yom Kippur,“ sagði Danon í yfirlýsingu.
Hann bætti við að Ísrael hefði „ítrekað boðið leiðir til að koma aðstoð friðsamlega til Gaza,“ en hélt því fram að flotinn hefði „engan áhuga á hjálp – aðeins ögrun.“
Ísrael heldur áfram að stöðva megnið af hjálpargögnum frá því að komast til Gaza, þar sem Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við manngerðri hungursneyð og víðtæku hungri vegna umsátursins um svæðið.
Hér fyrir neðan má sjá myndskeið þar sem sýnir Gretu Thunberg tala um að verið sé að ræna þeim og að Ísrael sé að brjóta með því alþjóðalög.
Komment