
Farþegaflugvél frá flugfélaginu Transavia, sem kom frá Amsterdam í morgun og átti að lenda á Akureyrarflugvelli, var beint til Egilsstaða vegna slæms skyggnis. Þrátt fyrir að veðuraðstæður hafi verið með lágskýjuðu móti, bendir allt til þess að gosmóða hafi haft áhrif á lendingarskilyrði. Þetta kemur fram í frétt Akureyri.net.
Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfis- og orkustofnun mældist mikil gosmóða á Akureyri og Ísafirði í nótt, og virðist slæðingur hennar teygja sig yfir stór svæði á Norðurlandi og Vestfjörðum.
Á flugvélaskrám Isavia kemur fram að Transavia vélin hafi átt að lenda um klukkan 9:30, og var enn skráð á áætlun þar þegar fréttin á Akureyri.net var skrifuð, þrátt fyrir að hafa lent annars staðar. Aftur á móti tókst flugvél Icelandair frá Reykjavík að lenda á Akureyri klukkan 9:32 í morgun.
Komment