
Athafnamaðurinn Róbert Guðfinnsson skrifaði í dag á Facebook um aðgerðir lögreglunnar á Siglufirði, sem hann lýsir sem „dramatískum“ viðbrögðum við tilviljanakenndu fylleríi.
Í færslunni segir Róbert að fjöldi lögreglubíla, þrír sérsveitarmenn vopnaðir hríðskotabyssum og jafnvel „bulldóser“ hafi mætt í miðbæinn vegna hóps Letta, sem starfað hefðu í bænum undanfarin ár, sem höfðu drukkið of mikið en einn þeirra datt illa í stiga.
Róbert segir að sérsveitin hafi mætt þrátt fyrir að allar dyr hafi verið ólæstar og aðgerðin hafi endað með því að þrír sofandi iðnaðarmenn og tveir aðrir voru handteknir og leiddir út í járnum. Sá sem datt í stiganum var fluttur á Akureyri til skoðunar, en enginn slasaðist alvarlega.
„Málið reyndist stormur í vatnsglasi. Engin vopn, enginn stunginn, enginn skotinn. Bara nokkrir harðduglegir menn á fylleríi,“ skrifar Róbert. Hann gagnrýnir einnig fjölmiðla og yfirstjórn lögreglu og spyr hvort sama aðgerðir hefðu átt sér stað ef um íslenskan borgara hefði verið að ræða, eða hvort þjóðerni hafi haft áhrif.
Róbert hvetur að lokum yfirstjórn lögreglu og dómsmálaráðherra til að endurskoða stefnu og verklag og leggur áherslu á að Siglufjörður eigi að vera friðsæll bær þar sem fólk getur lifað í sátt.
Komment