
Á opnum fundi Samfylkingarinnar um helgina var lesið upp bréf frá Gadzhi Gadzhiev, manni frá Dagestan í Rússlandi sem vísað var úr landi ásamt eiginkonu sinni, tveggja ára syni þeirra og nýfæddum tvíburum. Í bréfinu, sem beint var til Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra, lýsir Gadzhi erfiðum ofsóknum í heimalandi sínu og þeirri meðferð sem fjölskyldan segist hafa orðið fyrir af hálfu íslenskra yfirvalda.
No Borders Iceland gagnrýndu í færslu á Facebook að Kristrún hafi ekki viljað koma neinum skilaboðum áleiðis til fjölskyldunnar þegar hún var innt eftir því.
Í upphafi bréfsins segir Gadzhi:
„Ég heiti Gadzhi, og ég er frá Dagestan, héraði sem enn er undir hernámi Rússlands. Það er með sársauka í hjarta sem ég ávarpa þig, ekki sem stjórnmálamann, heldur sem manneskju.“
Hann segir frá því að hafa verið numinn á brott árið 2016 og fangelsaður í Síberíu:
„Af þeim tíma sem ég varði í fangabúðunum í Síberíu eyddi ég tæplega fjórum árum í einangrunarvist, þar sem ég var pyntaður, líkamlega, kynferðislega og andlega. Ég var kerfisbundið niðurlægður vegna uppruna míns.“
Eftir að hafa sloppið úr haldi árið 2021 segir hann að fjölskyldan hafi flúið til Tyrklands og síðar til Íslands, í þeirri trú að fá vernd. Þar hafi hann sótt um alþjóðlega vernd, en umsókninni hafi verið hafnað þrátt fyrir að móðir hans og systkini hefðu þegar fengið vernd hér á landi.
Gadzhi fullyrðir að starfsmaður ríkislögreglustjóra, „Olga að nafni,“ hafi komið fram við fjölskylduna af hörku:
„Hún sagði ítrekað við mig og eiginkonu mína, sem þá var ófrísk af tvíburum og á áhættumeðgöngu, að ‘hún skuli ekki fá að fæða hér.’“
„Í viðurvist eiginkonu minnar […] sagði Olga að við værum hér í ólöglegri dvöl og að hún myndi persónulega sjá til þess að við yrðum send til Rússlands.“
Síðar í bréfinu lýsir hann brottvísun fjölskyldunnar úr landi 30. september:
„Við fengum 20 mínútur til að taka saman eigur okkar og vorum flutt í varðhald á óþekktum stað. Að morgni 30. september vorum við flutt með leynd um sérstakan inngang á Keflavíkurflugvelli, sett í einkaþotu og vísað úr landi til Króatíu, án dómsúrskurðar, án samskipta við lögmann, og án nokkurrar tilkynningar.“
Gadzhi segir að brottvísunin hafi verið framkvæmd þegar eiginkona hans var nýbúin að fæða með keisaraskurði:
„Flugið var áhættusamt gagnvart heilsu hennar og lífi, en starfsmennirnir vissu þetta og framkvæmdu samt brottvísunina.“
Hann lýsir ástandinu í Króatíu sem mjög bágbornu:
„Við vorum vistuð í flóttamannabúðum, í lokuðu herbergi þar sem kakkalakkar gengu lausir. Þar fengum við í fyrsta sinn afhent íslensk fæðingarvottorð dætra okkar, útgefin 18. september, skjöl sem höfðu verið í vörslu Olgu og meðvitað haldið frá okkur.“
Í bréfinu kallar Gadzhi eftir því að íslensk stjórnvöld rannsaki málið og leyfi fjölskyldunni að snúa aftur til Íslands:
„Ég biðla til ykkar af einlægni um að þið beitið ykkur í máli okkar, rannsakið gjörðir starfsmanna ríkislögreglustjóra, og leyfið fjölskyldu minni að snúa aftur til Íslands, þar sem móðir mín, bróðir og systir búa.“
Hann lýkur bréfinu með því að segjast ekki vera að biðja um vorkun.
„Við biðjum ekki um neina vorkun. Við biðjum aðeins um réttlæti, öryggi, og mannlega reisn.“
„Eðlileg vinnubrögð“
Forsætisráðherra var spurð í lok fundarins hvort henni þætti brottvísun fjölskyldunnar vera eðilega og hvort hún vildi koma einhverjum skilaboðum áleiðis til fjölskyldunnar. Kristrún sagði að eftir því sem hún best vissi hefðu verið stunduð eðlileg vinnubrögð þegar fjölskyldunni var vísað úr landi en ef í ljós komi að svo er ekki, þurfi að skoða það. Sagði þakkaði einnig fyrir þessar spurningar og sagði að mál sem þessi hreyfi bæði við fólki og kerfinu en að það þýði ekki að hún stígi inn í einstök mál, það verði að vera hægt að treysta þeim stofnunum sem fara með mál hælisleitenda.
Einn af meðlimum No Borders Icelands, sem var á fundinum spurði Kristrúnu aftur hvort hún vildi skila einhverju til rússnesku fjölskyldunnar.
„Mér finnst ég hafa talað ansi almennt um þessi mál hérna,“ svaraði Kristrún en No Borders-meðlimurinn skaut þá inn í:
„Þannig að [fjölskyldan er] bara eðlilegur fórnarkostnaður?“
Kristrún svaraði:
„Það var ekki það sem ég sagði.“
„Eðlileg vinnubrögð heyrði ég,“ svaraði þá maðurinn um hæl.
„Ég hef ekki forsendur til að svara fyrir það, ég hef ekki séð rannsókn þessa máls,“ svaraði forsætisráðherra og bætti við: „Auðvitað finn ég gríðarlega til með stöðu þessa fólks eins og stöðu mjög margra í viðkvæmri stöðu víða í heiminum.“
Annar meðlimur No Borders Iceland spurði þá Kristrúnu hvort hún þyrfti ekki að skoða mál fjölskyldunnar og því játaði hún. „Jú, það eru ýmsir að skoða það og það er ekki viðeigandi að ég sé að tjá mig um smáatriði í máli einstaklings og ég læt þar við sitja. Það þýðir ekki að ég sé ekki fullkomlega meðvituð um erfiða stöðu þessa fólks og það hefur alla mína samúð. Við getum ekki stjórnað með þeim hætti að við förum alltaf inn í stök mál sem ráðamenn en það er hlustað og þess vegna ber ég fullkomna virðingu fyrir ykkar baráttu og það hefur oft í gegnum tíðina skilað sér.“
Komment