Þórarinn Ævarsson, fyrrverandi forstjóri Ikea, Dominos og pítsastaðarins Spaðans, var metnaðarfullur sem ungur maður og hugsaði bara um „monní, monní, monní.“ Hann vildi komast í „efnisleg gæði“ en sneri við blaðinu. Hann telur að sama eigi við um íslensku þjóðina.
„Ég eignaðist fyrsta bensinn minn þegar ég var bara tuttugu og eitthvað ára gamall. Og síðan hef ég verið bílasjúkur. Og þetta gerir ekkert fyrir mann. Ekki neitt,“ segir hann og bætir við: „Sama á við um föt. Það flæða föt út úr skápunum heima hjá manni og maður á aldrei nóg af fötum. Maður á aldrei nóg af öllu,“ segir hann í viðtali í nýjasta hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar.
Óhamingjusöm og að kafna úr streitu
Þórarinn talar þar um umbreytingu sína, sem hann segir að speglist í hæglátri byltingu meðal Íslendinga.
„Það má segja það sama um mig og íslensku þjóðina að ég kem úr fátækt, það var lítið um efnisleg gæði þegar ég var að alast upp og eðlilega setti maður þess vegna fókusinn á að eignast peninga. Ég var ofboðslega metnaðargjarn og þetta gekk bara út á ,,monní, monní, monní”, en svo þegar maður horfir til baka gerði það ekki mikið fyrir mig að eignast nýja bíla og fleiri veraldlega hluti. Ég þurfti að klessa harkalega á vegg til að skipta alveg um takt. Stundum finnst mér eins og það sama sé að gerast með þjóðina í heild. Ísland var fátækari en Albanía og í raun fátækasta land í allri Evrópu og við þurftum á 50 árum að bæta upp fyrir það forskot sem aðrar þjóðir höfðu náð á árhundruðum.“
Hann lítur svo á að Íslendingar greiði fórnarkostnað fyrir meiri efnisleg gæði.
„Þessi ofboðslega efnishyggja og sambanburður hefur einkennt okkur. Það er auðvitað mjög jákvætt og gott að hafa komist úr moldarkofum í allt þetta ríkidæmi á svona skömmum tíma, en það fylgir þessu fórnarkostnaður og við erum að horfa upp á hann núna. Það sést í því að við virðumst orðin býsna óhamingjusöm og að kafna úr streitu og lífsstílssjúkdómum. Hraðinn er orðinn gengdarlaus og á endanum tekur það toll á taugakerfið og bæði andlega og líkamlega heilsu,” segir Þórarinn.
Íslendingar mælast þó gjarnan í fremstu röð í mælingum á hamingju og svo þegar kemur að ævilengd.
,,Við erum orðin svo aftengd án þess að gera okkur grein fyrir því“
Þórarinn segir að streitunni fylgi aftenging og firring. ,,Við erum orðin svo aftengd án þess að gera okkur grein fyrir því og höfum oft og tíðum misst sjónar af því sem raunverulega skiptir máli í lífinu. Að vera með fjölskyldu og vinum, geta gefið af sér, staldrað við og komið vel fram við náungann. Það eru meira en 70 þúsund manns á SSRI-lyfjum [geðdeyfðarlyfjum] á Íslandi og bara sú staðreynd er svakaleg og eitthvað sem ætti að fá okkur til að hugsa um hvað sé í gangi.“
Vill taka umræðu um hugvíkkandi efni
Sjálfur hefur Þórarinn talað fyrir notkun hugvíkkandi efna. Það gerir hann líka í viðtalinu við Sölva Tryggvason.
„Svo er mikið magn af fólki að glíma við króníska verki og lausnin við því er að dæla opíóðum í fólk. Ríkið hefur ákveðið að opíóðar séu í lagi og að áfengi sé hið viðurkennda efni sem fólk notar. En það hafa verið teknar saman fjölmargar rannsóknir á alls konar efnum með tilliti til þess í hvaða mæli þau geta skaðað annars vegar sjálfan þig og hins vegar aðra. Áfengi skorar þar langefst á báðum listum og er í raun bara vont fyrir allt og alla. Sveppir og LSD og önnur hugvíkkandi efni eru langneðst á þessum listum. Þú getur skaðað sjálfan þig á þeim efnum, en þú skaðar nánast aldrei aðra. Það er löngu tímabært að taka þessa umræðu úr skotgröfunum og horfa á staðreyndir.”
Þórarinn hefur meðal annars notað kannabisolíu til þess að slá á verki og hjálpa við svefn og hvíld. Hann segist ekki skilja að það komi ríkinu við í hvaða meðvitundarástandi hann kýs að vera heima hjá sér:
„Ég er búinn að glíma við króníska verki í talsverðan tíma og hef leitað allra leiða til að finna lausnir. Það er ekkert sem læknar þetta alveg, en kannabis hefur reynst mér frábærlega til að slá á verki og hjálpa við svefn og hvíld. Ég hef verið að nota kannabis-olíu áður en ég sofna, af því að ég er ekki að leita eftir því að vera undir neinum áhrifum. Ég var orðinn lífshættulega háður ópíóðum og það er ekki valkostur fyrir mig að fara aftur þá leið, þó að það sé löglega leiðin samkvæmt kerfinu. Skaðinn sem þau efni valda og dauðsföllin eru löngu orðin óumdeild. Ég get ekki séð hvað það komi yfirvöldum við í hvaða meðvitundarástandi ég, sextugur maðurinn, ákveð að vera í heima hjá mér. Það er almennt samþykkt að heilinn þroskast ekki að fullu fyrr en eftir ákveðinn aldur og það er ekki gott að nota kannabis fyrir þann tíma, en eftir að ákveðnum aldri er náð virðist það geta haft frábær áhrif á alls kyns kvilla, bætt svefn, aukið matarlyst og fleira þar fram eftir götum,” segir Þórarinn, sem segir tíma til kominn að taka þessa umræðu af alvöru og horfa á staðreyndir fordómalaust.
Talar fyrir lögleiðingi kannabis
Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á skaðsemi kannabis-efna, en Þórarinn kveðst ekki kominn í viðtal hjá Sölva til að upphefja efnið.
,,Ég er ekki kominn hingað til þess að ,,glorify-a” kannabis eitthvað sérstaklega, en það er búið að koma ótrúlegu óorði á kannabis og margt af því er ekki á rökum reist. Meira að segja mestu regluþjóðir Evrópu eins og Þýskaland hafa farið í að lögleiða kannabis. Smáglæpum hefur fækkað þar mikið eftir þetta og afleiðingarnar eru mjög jákvæðar. ,,War on drugs” er löngu tapað og það er löngu tímabært að taka þetta upp á yfirborðið og byrja lögleiðingu, ekki síst á þeim efnum sem hafa jákvæð áhrif á alls kyns kvilla sem fólk er að þjást af. Ríkið getur haft af þessu mikla skattpeninga og það er auðveldara að takmarka aðgengi gagnvart ungu fólki ef þetta verður tekið af götunni og gert löglegt. Það er framundan stór ráðstefna þar sem margir af helstu sérfræðingum í heimi á þessu sviði munu koma fram og ég skora á fólk að mæta þangað og kynna sér þetta betur.”
Þórarinn opnaði sig fyrir rúmum tveimur árum um það hvernig hugvíkkandi efni björguðu lífi hans, þegar hann var kominn algjörlega á botninn í þunglyndi og vanlíðan. Hann segir það hafa verið gott að losa sig við skömmina og fannst siðferðilega rétt að deila sinni sögu opinberlega.
„Ég veit að þetta var mikilvægasta verkefnið í lífi mínu. Að komast út úr þunglyndinu og lyfjafíkninni“
„Ég fór í viðtalið á Vísi og kom líka í podcastið til þín einfaldlega af því að mér fannst ég ekki geta þagað um þetta. Ég var svo þakklátur yfir því að hafa fengið betra líf að ég fann mig knúinn til að tjá mig um það hvað hefði hjálpað mér. Síðan þá hef ég fengið gríðarlega mikil viðbrögð og staðfestingu á því hve margir eru illa haldnir af vanlíðan og hafa ekki fundið neinar lausnir inni í kerfinu. Ég er búinn að þurfa að vinna mikið í sjálfum mér eftir þetta og líf mitt hefur breyst mikið. En ég veit að þetta var mikilvægasta verkefnið í lífi mínu. Að komast út úr þunglyndinu og lyfjafíkninni, þannig að ég gæti verið til staðar fyrir konuna mína og börnin mín. Þó að ég hafi lagt nær öll mín leyndarmál á borðið þarna er ég í grunninn mjög prívat maður. En ég vissi einhvern veginn að ég gæti líklega hjálpað einhverjum með því að opna mig, af því að ég vissi að ég væri ekki einn á þeim stað sem ég var á. Það er mjög mikið af fólki að glíma við stanslausa verki og enn fleiri að glíma við alvarlegt þunglyndi eins og ég var fastur í. Ef að maður finnur lausnir sem gætu hjálpað öðrum er það beinlínis siðferðilega rétt að tala um það opinberlega.”
Þórarinn segist sannfærður um að mjög stór hópur Íslendinga sé að skipta um takt og heimsmynd og það sé í raun hæglát bylting í gangi sem eigi eftir að hafa mjög jákvæð áhrif.
,,Ég er sannfærður um að það sé hæglát bylting í gangi þar sem stór hópur fólks er að skipta um takt og tengjast sjálfu sér og öðrum. Hugvíkkandi efni spila þar stórt hlutverk og þeir sem hafa tekið þau í þeim tilgangi að bæta líf sitt teljast líklega í tugum þúsunda á Íslandi. Það kemur enginn samur út úr því að fara þá vegferð. Þessum efnum var haldið niðri í 50 ár, en nú er lokið komið af pottinum og þeirri þróun verður ekki snúið við.“
Þannig fór Þórarinn úr of mikilli efnishyggju yfir í efni sem breytir huganum, til hins betra að hans mati.
Komment