
Jódís er stolt af Valkyrjununum í ríkisstjórninni eftir að „kjarnorkuákvæðið“ svokallaða var virkjað og umræðu um veiðigjald slitið og frumvarpið síðan sent beint í atkvæðagreiðslu.
Jódís yfirgaf sinn gamla flokk í vor sem leið og var ástæðan sú að Jódís var ekki sátt við það sem hún kallaði klíkuskap og gamaldags spillingu sem væri að finna innan raða VG.

Jódís, sem sat á þingi fyrir VG í Norðausturkjördæmi árin 2021 til 2024, og 6. varaforseti Alþingis á sama tíma, tjáir sig um „kjarnorkuákvæðið“á samfélagsmiðli:
„Nú er ég hætt öllum afskiptum af stjórnmálum“ segir hún og bætir því við að hún tilheyri „engu stjórnmálaafli“ í dag en haldi þó áfram á fullu að fylgjast með stjórnmálum og henni finnst eins og að með ákvörðun stjórnarinnar hafi verið „brotið blað í sögunni.“
Jódís segist vera „ótrúlega stolt af mínum gömlu samstarfskonum Kristrún Frostadóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Inga Sæland. Ekki síst er ég stolt af Hönnu Katrínu Friðriksson og Þórunni Sveinbjarnardóttur sem hafa ekki látið ofbeldisfulla áróðursmaskínu sérhagsmunaafla beygja sig.“
Jódís er á því að flokkarnir sem misstu völdin í síðustu kosningum séu alls ekki búnir að jafna sig eftir að hafa rennt niður hinum beiska miði ósigursins og geti hreinlega ekki sætt sig við orðinn hlut:
„Gömlu valdaflokkarnir engjast eins og maðkar á öngli. Mál sem hefur árum og áratugum saman verið kallað eftir, þjóðin á auðlindirnar. Stórkapítalið á ekki og má ekki kaupa sér niðurstöðu í þingsal eins og það hefur komist upp með í valdatíð XB og XD með stuðningi flokka eins og VG sem þorði aldrei að standa í lappirnar gegn þessum yfirgangi í ótta sínum við að missa spón úr aski.“
Jódís færir einnig í tal að „skömm okkar má vera mikil varðandi sjókvíaeldi og búvörulög þar sem nákvæmlega þetta ofbeldi hefur ráðið för.“
Hún segir að lokum að „þjóðin kaus og hafnaði frekara arðráni. Til hamingju Ísland, Alþingi hefur í dag dregið línu í sandinn. Lýðræðið virkar!“
Komment