Stór orð og harðar deilur á Alþingi.
Formaður Sjálfstæðisflokksins, Guðrún Hafsteinsdóttir, og Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra skiptust á nokkrum vel völdum orðum í þinginu í dag.
Sagði Guðrún að lýðræði snerist fyrst og fremst um að minnihlutinn fái að hafa áhrif og sakaði hún ríkisstjórnina um þöggunartilburði en undir það tók Kristrún svo sannarlega ekki. Hún sagði hreint út að það virki ekki einfaldlega þannig að stjórnarandstöðuflokkarnir fái að ákveða hvar línan liggur hverju sinni eða yfirhöfuð.

Þungt var yfir þinginu og ansi hart hafur verið tekist á eftir að Kristrún flutti yfirlýsingu í upphafi þingfundar. Hún hélt því fram á fundinum að það ástand sem upp er komið á þinginu væri algjörlega fordæmalaust; að framferði minnihlutans ætti sér ekki nokkra hliðstæðu í íslenskri stjórnmálasögu.
Kristrún gagnrýndi harðlega framferði stjórnarandstöðuna., Sérstaklega fyrir málþóf vegna veiðigjaldafrumvarpsins og sagði hún stöðuna afar alvarlega fyrir lýðræði og stjórnskipun Íslands: Að með framferði sínu væri minnihlutinn ekki að viðurkenna meirihlutaræðið á Alþingi.
Í kjölfar yfirlýsingarinnar var ljóst að leiðtogar ríkisstjórnarinnar eru afar ósáttir við að Hildur Sverrisdóttir, sem er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks og einnig fimmti varaforseti Alþingis, hafi slitið þingfundi í gærkvöldi án samráðs við forseta þingsins.

Guðrún sagði að lýðræði snúist ekki einungis um að meirihlutinn ráði:
„Lýðræði snýst líka um að minnihlutinn fái að tjá sig og minnihlutinn fái að hafa áhrif á Alþingi. Alþingi Íslendinga byggir á þeirri hugsun, enda hafa fulltrúar í meiri- og minnihluta alveg jafnt lýðræðislegt umboð.“
Og hún tók undir með forsætisráðherra að fordæmalaust ástand hafi skapast á Alþingi, en það segir hún skrifast alfarið á ríkisstjórn hennar:
„Það er þannig að alla tíð, í öllum þeim erfiðu málum sem Alþingi hefur tekist á við í gegnum tíðina, þá hafa þingmenn sýnt þroska, virðingu og skilning á því að þingið á að vera vettvangur umræðu en ekki þöggunar. Hingað til hefur meirihlutinn stutt við þá hefð að leita sátta og samninga í stað þess að beita valdi til að þagga niður í minni hlutanum allt þar til ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur tók við,“ sagði Guðrún, sem að lokum beindi orðum sínum til forseta þingsins: Spurði af hverju hafi ekki verið upplýst um lengd þingfundar í gær.
Kristrún svaraði Guðrúnu fullum hálsi og sagði að henni þætti það „ótrúlegt að formaður Sjálfstæðisflokksins komi hér inn og lýsi því yfir að það sé eðlilegt, það sem gerðist hér í gærkvöldi af hálfu þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins af því að einhverjir hafi ekki verið upplýstir um stöðu mála,“ sagði Kristrún og bætti við:
„Allir sem þekkja til þingstarfa vita að varaforsetar slíta ekki fundi nema eftir samtal við forseta“ og þykir Kristrúnu þetta vera alvarlega „yfirlýsingu frá formanni flokks sem hefur í gegnum tíðina talið sig vera ábyrgan stjórntækan flokk sem hægt er að treysta á lýðræðislegum grunni.“

Sagði forsætisráðherra einnig að „að stjórnarmyndunarviðræður stæðu ekki yfir“ og benti á að hlutirnir virki ekki alltaf eins og fólk haldi að þeir geri eða vilji. „Það virkar ekki þannig eftir að ný ríkisstjórn tekur til valda að fólk sest niður og formenn Sjálfstæðisflokks, formenn Miðflokks og formenn Framsóknarflokks ákveða hvar línan er dregin og segja: Hingað en ekki lengra. Það sem hæstvirtur þingmaður er að verða vitni að er ríkisstjórn sem treystir sér til að stýra landinu, treystir sér til að virða lýðræðislegt umboð og veit sannarlega hvar línan liggur,“ sagði Kristrún og bætti við. „Sú lína er ekki dregin af formanni Sjálfstæðisflokksins.“

Ástandið í þinginu hefur verið mikið til umræðu að undanförnu og mörg stór orð hafa verið látin falla, sérstaklega þegar kemur að hinu umdeilda veiðileyfisgjaldi.
Einn fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Ásmundur Friðriksson, sem var þingmaður Suðurkjördæmis á árunum 2013 til 2024 og 4. varaforseti Alþingis árin 2023 til 2024, er langt í frá ánægður með stöðu mála á sínum gamla vinnustað.
Ásmundur hafði ekki hugsað sér að blanda sér í deilurnar á Alþingi, en deilir frétt um að Bryndís Haraldsdóttir þingkona segir Hildi Sverrisdóttur hafa fylgt vinnureglum þegar hún sleit þingi.
„Ég ætlaði ekki að hafa opinbera skoðun á þingstörfunum eftir að ég hætti á þingi“ segir Ásmundur og nefnir að fréttir og umræður síðustu daga „ná engri átt og niðurlæging þingsins nær nýjum hæðum“. Ásmundur stígur fast niður fæti. „Skammist ykkar og biðjist afsökunar,“ segir hann.
Komment