
Einn dýrasti og frægasti hundur Íslands, Samson, hundur fyrrverandi forsetahjónanna Dorritar Moussaieff og Ólafs Ragnars Grímssonar, á sex ára afmæli í dag en af því tilefni birti Dorrit fallegt myndband sem sýnir stundina er þau litu hvort annað augum í fyrsta sinn.
Hundurinn er eins og frægt er orðið, klón af gamla hundi hjónanna, Sáms sem yfirgaf jarðlífið sumarið 2008. Í viðtali sem Heimildin tók við Dorrit í fyrra, sagði hún að Samson væri ástin í lífi hennar og að hún myndi helst vilja dvelja alltaf á Íslandi með honum en vegna tíðra ferðalaga er það ekki hægt. Í viðtalinu kemur einnig fram að uppáhaldsiðja Dorritar á Íslandi er að fara upp á Esjuna með Samson en hún hefur í gegnum tíðina verið dugleg að birta myndir og myndbönd af samveru þeirra í íslenskri náttúru.
Við Facebook-færsluna skrifaði Dorrit eftirfarandi texta:
„Til hamingju með afmælið, elsku besti Samson minn. Þetta er í fyrsta skipti sem ég sé þessa dásamlegu veru. Samson hefur verið öllum til blessunar. Þakka þér, Agnies, fyrir að hjálpa til við að fæða hann.“

Komment