
Ekki liggur fyrir hvort einhver hafi slasast eða látið lífið í risastórri sprengingu í flugeldaverksmiðju í Kaliforníu í gærkvöldi.
Verksmiðjan er staðsett í Yolo-sýslu, rétt hjá Sacramento og samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs hefur ekki tekist að slökkva eldinn að fullu. Yfirvöld hafa beðið fólk um að halda sig fjarri svæðinu næstu daga. Slökkviliðsstjóri á svæðinu sagði við fjölmiðla að svona atvik séu mjög sjaldgæf þar sem fyrirtæki í þessum geira þurfi að fara eftir mjög ströngum öryggisreglum sem Kalifornía setur.
Yfirvöld á staðnum hafa sagt að eldurinn hafi komið upp í verksmiðjunni en borist yfir í önnur nærliggjandi fyrirtæki og nái yfir 32 hektara svæði. Ekki liggur fyrir nákvæmlega um ástæðu þess að eldurinn kom upp.
Komment