
Tilkynningum um kynferðisbrot fjölgaði lítillega á fyrstu sex mánuðum ársins 2025 en heildarfjöldinn er svipaður og á sama tímabili undanfarinna ára. Alls bárust 291 tilkynning á fyrri hluta ársins, samkvæmt nýrri skýrslu ríkislögreglustjóra.
Samkvæmt skýrslunni voru 104 nauðganir tilkynntar á tímabilinu, sem er 8% aukning miðað við meðaltal sama tímabils síðustu þriggja ára. Á móti fækkar tilkynningum um kynferðisbrot gegn börnum um 5%.
Tilkynningum um blygðunarsemisbrot fækkaði mest, eða um 31%. Í skýrslunni kemur fram að ástæðan gæti verið breytt flokkun slíkra mála, þar sem þau falli nú oftar undir kynferðislega áreitni eða stafrænt kynferðisofbeldi.
Áhersla á fræðslu og fagþekkingu
Fram kemur í fréttatilkynningu lögreglunnar að hún hafi á síðustu misserum aukið áherslu á fræðslu um meðferð kynferðisbrota í samræmi við aðgerðaáætlun dómsmálaráðuneytisins. Þar er meðal annars fjallað um einkenni áfallastreituröskunar, öflun og mat á sönnunargögnum og aðstæður fatlaðs fólks innan réttarkerfisins.
Í september fór fram fræðsla á vegum Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar um skýrslutökur hjá einstaklingum í viðkvæmri stöðu, sérstaklega fötluðu fólki og ungum sakborningum. Þá hélt sérfræðingurinn Patrick Tidmarsh námskeið um nýja nálgun í rannsóknum kynferðisbrota, sem kallast The Whole Story.
Úrræði fyrir þolendur
Upplýsingar um meðferð kynferðisbrota innan réttarkerfisins og úrræði fyrir þolendur má finna á Ofbeldisgáttinni á vef 112.is. Þar má einnig tilkynna mál, eða með því að hringja í 112.
Komment