
Heimildin hefur gert ítarlega úttekt á úrræðaleysi sem ungir karlmenn sem glíma við ýmsa erfiðleika upplifa og ber úttektin nafnið Týndu strákarnir – sem fundu leiðina heim.
Í henni lýsa þrír menn reynslu sinni af kerfinu sem átti að grípa þá sem börn og unglingar.
Fannar Freyr Haraldsson er einn þeirra sem rætt er við en í viðtalinu segir Fannar frá reynslu sinni af Stuðlum, sem er meðferðarheimili fyrir ungmenni sem glíma við alvarlegan hegðunar- og fíknivanda.
„Ég var erfiður. Mamma vildi leggja fyrir mig þvagprufu en ég neitaði og það urðu átök vegna þess. Ég stal lyfjum sem voru falin á heimilinu og þau reyndu að straffa mig, sem gekk ekki. Mamma var svo nojuð yfir þessu að þau voru fljót að senda mig í neyðarvistun á Stuðlum,“ en að sögn Fannars átti hann litla samleið með þeim sem voru á Stuðlum.
„Ég var mjög lágt settur þarna inni. Ég kunni ekkert við mig með strákunum sem voru þar. Þeir voru mun verr settir en ég og ofbeldisfullir þannig að ég upplifði mig ekki öruggan. Ég var hræddur við marga sem ég var lokaður inni með. Þeir komu heldur ekkert vel fram við mig til að byrja með,“ útskýrir hann í viðtalinu við Heimildina. „Þú sérð krakka koma þarna inn með einhverja skerðingu eða annan vanda, sem fatta ekki hvernig þetta virkar. Krakkar sem eru ekki með neina brynju, kunna ekki leikinn og lenda mjög illa í því, verða jafnvel fyrir einelti,“ segir Fannar.

Komment