Jóhannes Felixson, betur þekktur sem Jói Fel, vann nú í sumar við það að elda fyrir starfsfólk og fanga á Litla-Hrauni en lýsti hann starfinu í viðtali á Vísi í síðustu viku. Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, segir í samtali við Mannlíf að almenn ánægja hafi verið með störf Jóa en yfirvöld þurfi að gera betur til að tryggja föngum næringarríkan mat.
„Föngum í íslenskum fangelsum finnst almennt matarmál skipta miklu máli og eru sammála um að kostnaður og aðgengi hamli því að hægt sé að stuðla að mannsæmandi mataræði,“ sagði Guðmundur við Mannlíf um matarmál í íslenskum fangelsum.
„Á Litla Hrauni fá fangar matarpeninga og sjá sjálfir um innkaup og matseld en verðlagning verslunar fangelsisins er hærri en í almennum verslunum og því erfitt að kaupa nægan og næringarríkan mat. Flestir mynda matarhópa til að spara en fæðisféð, sem er 1.700 krónur á dag, dugir oft skammt.“
Kaupmáttur hefur rýrnað
Guðmundur segir að það sé talsverður munur á matarmálum í íslenskum fangelsum. „Á Kvíabryggju og Sogni starfa fangar í eldhúsi og elda fyrir bæði aðra fanga og starfsfólk. Oft er það með mikilli fagmennsku ef kunnátta er til staðar en það getur auðvitað breyst reglulega. Á Litla Hrauni elda fangar sjálfir fyrir sig, nema þeir sem eru í einangrun eða geta ekki eldað mat.“
En hver er munurinn á þessum málum í dag og fyrir tíu árum?
„Helsta breytingin er sú að kaupmáttur fanga hefur rýrnað mjög á síðustu tíu árum þar sem fæðisfé hefur lítið sem ekkert hækkað miðað við verðlag og neysluviðmið,“ segir formaðurinn. „Þrátt fyrir að fangar reyni að skipuleggja innkaup í matarhópum er erfiðara en áður að fá nóg af næringarríkum mat í afplánun.“
Hélt námskeið fyrir fanga
Guðmundur segir að Afstaða vilji sjá hækkun á fæðisfé og dagpeningum í samræmi við raunkostnað og neysluviðmið, svo fangar geti notið fjölbreytts matarræðis, og aðgengi að ferskum og næringarríkum mat þurfi að vera tryggt, ásamt því að lækka álagningu á matvöru í fangelsisversluninni.
„Varðandi Jóa Fel þá sá hann almennt um að elda fyrir starfsfólk, einangrun og fanga sem ekki geta eldað sjálfir,“ sagði Guðmundurinn um stjörnukokkinn á Litla-Hrauni. „Jói hélt samt ýmis námskeið og aðstoðaði fanga á öryggisgangi með að læra að bjarga sér. Almenn ánægja var með allt sem Jói kom að og vonandi mun hann koma meira að matseld í fangelsum í framtíðinni en hann var tímabundið ráðinn síðasta sumar.“
Komment