
Erlendur ferðalangur sat fastur við Mælifellssand en jeppi hans sökk þar í flæðum.
Óskar Björnsson birti ljósmyndir í Facebook-hópinn Færð á vegum í dag en hann hafði þá keyrt fram á erlendan ferðalang sem var kominn í ógöngur með jeppann sinn. Hann hafði sokkið í sandinn í flæðunum austan við Mælifell. Óskar reyndi í fyrstu að aðstoða hann en þegar bíll hans hóf einnig að sökkva varð hann að koma sér í burtu.
„Hann festi sig í gær og er sokkinn upp að þakpóst að framan og er að grafast inn í sandinn,“ segir Óskar í samtali við Mannlíf. Að hans sögn var maðurinn erlendur. „Ég gat stoppað og talað við hann í tvær mínútur en þá byrjaði bara að grafast undir bílnum hjá mér þannig að ég varð að halda áfram ferðinni. Þannig að hann er bara einn að bardúsa þarna og bíllinn er ennþá þarna. Það þarf einhver stór tæki til að ná honum í burtu.“
Vatnavextir á svæðinu hafa verið óvenjulegir undanfarið en fyrir viku var varað við þeim vatnavöxtum.
Komment