Staðfest hefur verið að mengun hafi borist í vatnsból Stöðfirðinga eftir úrhellisrigningar í síðustu viku. Íbúum er því ráðlagt að sjóða allt vatn til drykkjar og matargerðar. Kemur þetta fram í umfjöllun Austurfréttar.
Frumniðurstöður sýna sem Heilbrigðiseftirlit Austurlands fékk úr mælingum á miðvikudag benda til að vatnið hafi mengast vegna veðurofsa síðustu daga. Vatnið er þó talið öruggt til annarra nota, svo sem til dæmis að baða sig í, þar sem magn gerla í vatninu er innan þeirra marka sem miðast við baðvatn í náttúrunni.
Fjarðabyggð mun áfram fylgjast með stöðunni á Stöðvarfirði og upplýsa íbúa um þróun mála eftir því sem fram vindur.
Þetta er þriðja tilfellið á um tveimur mánuðum sem mengun í vatnsbóli kemur upp á svæðinu. Nú þegar hefur verið pantaður geislunarbúnaður sem á að tryggja að vatnið á Stöðvarfirði verði hreint til framtíðar, og vonast er til að hann verði kominn í notkun um miðjan október.
Komment