
Lára Zulima Ómarsdóttir, fyrrverandi fréttakona og leiðtogi almannatengsla Pipar/TBWA, gagnrýnir harðlega dómstóla og löggjafann sem hún segir hafa brugðist þolendum kynferðisofbelda og að það virðist ekki ætla að lagast.
„Ég stend með þolendum kynferðisofbeldis, alltaf.
Því miður hafa dómstólar og þar með löggjafinn brugðist þolendum og þeim sem kæra kynferðisbrot til lögreglu alvarlega. Það virðist ekkert ætla að lagast og því ekki furða að þolendur veigri sér við að fara alla leið með mál.“ Þannig hefst færsla Láru sem hún birti á Facebook í hádeginu.
Segir hún ennfremur að í trekk í trekk fái barnaníðingar væga dóma hér á landi og halda áfram brotum sínum óáreittir um áraraðir.
„Aftur og aftur sjáum við væga dóma yfir mönnum sem brjóta á börnum og svo halda þeir óáreittir áfram, áratugum saman.“
Lára spyr síðan áleitinna spurninga:
„Hvenær ætlar löggjafinn að vakna? Hvenær ætla dómarar að dæma eftir alvarleika kynferðisbrota? Hvers vegna njóta gerendur alltaf vafans?“
Að lokum segist Lára trúa og standa með þolendum kynferðisbrota.
„Ég trúi þolendum kynferðisofbeldis. Ég stend með þolendum kynferðisbrota. Alltaf. Sama hver gerandinn er.“
Systir Láru, Alma Ómarsdóttir, fréttakona hjá RÚV, tekur undir með færslunni og skrifar í athugasemd:
„Vel mælt. Ég stend með þolendum. Alltaf.“
Ýmsir dómar yfir kynferðisbrotamönnum hafa vakið athygli og reiði meðal almennings í gegnum tíðina en nýjasta dæmið er mál Arnar Ómarssonar sem hlaut skilorðsbundinn dóm fyrir vörslu á yfir 30 þúsund ljósmyndum og 219 kvikmyndum sem sýndu börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt.
Árið 1993 fjallaði Pressan um gróf kynferðisbrot Arnar gegn börnum í Breiðholtinu en hann var þá ekki dæmdur til refsingar, þrátt fyrir að hafa játað brot sín.

Komment