„Ég á barnabörn á þessum leikskóla, meðal annars á deildinni sem þetta gerist á“ segir þingmaðurinn Jón Gnarr og bætir því við að „atvikið sem um ræðir gerist á þriðjudag og maðurinn er handtekinn daginn eftir“.
Jón vísar í frétt um að starfsmaður á leikskóla hafi mögulega brotið kynferðislega gegn barni á leikskólanum Múlaborg við Ármúla í Reykjavík og segir að „kynferðisafbrot gegn börnum eru einhver þau allra erfiðustu og ömurlegustu mál sem upp koma.“
Jón segir að eðlilega sé „málið í fullri vinnslu og veit að takmarkaðar upplýsingar eru gefnar upp opinberlega, sem skiljanlegt er.“
Hann nefnir einnig að foreldrar fái símtöl, og að búið sé að ræða við börnin á deildinni í Barnahúsi.
En hins vegar finnst þingmanninum Jóni „alveg stórfurðulegt að Reykjavíkurborg sé ekki búin að bjóða foreldrum þessara barna uppá fund“ og segir einnig að „samkvæmt upplýsingum sem okkur aðstandendum hafa borist stendur ekki til að funda með foreldrum fyrren á mánudaginn. Mér finnst það algjörlega óásættanlegt.“
Jón spyr einfaldlega hvort það sé alveg nauðsynlegt „að eyðileggja helgina fyrir fólki líka, og halda heilu fjölskyldunum í stofufangelsi og fá allskyns upplýsingar í gegnum fjölmiðla og samfélagsmiðla?“
Þetta segir Jón að geti ekki „samræmst eðlilegu verklagi, heilbrigðri skynsemi eða samskiptum“ og honum finnst að „foreldrar“ eigi „rétt á því að fá fund í dag, helst með leikskólastjóra og starfsfólki frá viðkomandi sviði, þar sem þau hitta hvert annað og einhver horfir í augun á þeim og segir þeim að þetta sé ömurlegt og það sé eðlilegt að þau séu í uppnámi og það sé verið að rannsaka þetta af fullum krafti.“
Jón nefnir að lokum að síðan hægt sé að „halda annan fund á mánudaginn. Er þetta ekki eðlileg og sanngjörn krafa?“
Komment