
Efling hefur sent áskoranir á 25 opinberar stofnanir þar sem skorað er á þær að hætta viðskiptum við veitingafyrirtæki sem brjóta gegn gildandi kjarasamningum að sögn stéttarfélagsins. Meðal stofnananna sem um ræðir eru lögregluembætti, dómstólar og fimm ráðuneyti en greint er frá þessu í tilkynningu frá Eflingu.
„Fyrirtækin sem um ræðir eru virk aðildarfélög í Samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði, SVEIT. Sem kunnugt er hefur SVEIT gert svokallaðan kjarasamning við gervistéttarfélagið Virðingu, félag sem stofnað er og stýrt af atvinnurekendum í veitingageiranum.
Umræddur kjarasamningur skarast á við gildandi kjarasamning Eflingar stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins. Hann er í ósamræmi við lög og lágmarkskjör á vinnumarkaði. Kjarasamningurinn er þá ólögmætur sökum þess að Virðing uppfyllir ekki skilyrði þess að teljast stéttarfélag í skilningi laga, sökum þess að það er stofnað að undirlagi atvinnurekenda og er undir þeirra áhrifum,“ segir í tilkynningunni.
Efling segist hafa ástæðu til að ætla að þau fyrirtæki sem um ræðir styðjist við umræddan kjarasamning og brjóti þannig gegn réttindum starfsfólks. Þess vegna bendir stéttarfélagið í áskorun sinni hinum opinberu stofnunum á skyldur þeirra til að trygga að farið sé eftir kjarasamningum og réttindi launafólks séu tryggð.
„Því skorar félagið á umræddar 25 stofnanir að láta af viðskiptum við fyrirtæki sem eru aðilar að kjarasamningi SVEIT og Virðingar. Meðal þeirra stofnana sem um er að ræða eru Dómstólasýslan, Dómstólaráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið, embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Hefur Efling óskað eftir svörum frá öllum viðtakendum eigi síðar en að viku liðinni frá móttöku.“
Komment