
Stórstjarnan Ed Sheeran heldur tónleika í Øresundsparken í Kaupmannahöfn í kvöld en lestarkerfið þar í borg lagðist hálfpartinn á hliðina vegna tónleikanna.
Íslenskt par sem er í fríi í kóngsins København hafði samband við Mannlíf til að lýsa brjálæðinu sem fylgir Ed Sheeran en afar erfitt hefur reynst að fá far með lest í Kaupmannahöfn, þar sem þær eru yfirleitt troðfullar af aðdáendum rauðhærða sjarmatröllsins.

„Það var rosalegt að sjá allt þetta fólk sem var að fara á Ed Sheeran tónleikana,“ segir íslenskur karlmaður, sem ekki vill láta nafn síns getið, í samtali við Mannlíf en hann er þar staddur ásamt eiginkonu sinni. „Við löbbuðum inn í metro-lestarstöðina og það var allt stopp. Þvílík röð sem hreyfðist mjög hægt áfram. Og það voru þarna öryggisverðir sem voru að hrópa yfir mannfjöldann og segja að það verði hleypt inn í hollum og biðja fólk um að sýna þolinmæði. Við vissum ekkert hvað var í gangi en allir aðrir vissu það því þegar við komum niður þá var enn alveg pakkað og þá stendur á skjánum að allt lestarkerfið sé í rugli, það séu allt of margir farþegar út af Ed Sheeran-tónleikunum.“

Að lokum kom þó tóm lest en viðmælandi Mannlífs sagði að þá hefði brotist út fagnaðarlæti meðal þeirra sem biðu eftir lest.
„Þetta minnti svolítið á það þegar Ísland komst á EM í knattspyrnu karla, þetta voru rosaleg fagnaðarlæti. Eins og konan mín sagði, sem hefur ferðast til ansi margra landa, sérstaklega í Evrópu, „Ég hef bara aldrei séð svona áður á ævinni“. Og ég hef ekki heldur séð neitt í líkingu við þetta. Það var rosalegt að sjá þetta. Það var svo heitt og svo mikill raki í loftinu og sviti, þannig að þetta var alveg ný upplifun. Maður hefur heyrt að danska lestarkerfið sé svo frábært og áreiðanlegt og að ekkert klikki en þarna sá maður loksins að danska kerfið geti líka klikkað, þó það þurfi greinilega mikið til.“
Komment