
Rithöfundurinn Bragi Páll Sigurðarson skrifar á Facebook að þátttaka Möggu Stínu í friðarflotanum sem reynir að brjóta hafnbannið við Gaza sýni „raunverulegt hugrekki“. Í færslunni lýsir hann því hversu hættuleg aðgerðinni geti verið og hvetur íslensk stjórnvöld til að standa með henni.
„Það þarf raunverulegt hugrekki til þess að stíga um borð í bát sem ætlar að sigla inn á hernumið svæði,“ skrifar Bragi og bætir við að báturinn „inniheldur almenna borgara sem vilja rjúfa herkví, rjúfa þögn og stöðva þjóðarmorð og hungursneyð.“
Bragi segir að flotinn og skipverjar hafi orðið fyrir árásum: „Bát sem hefur orðið fyrir viðbjóðslegum árásum eins háþróaðasta hers í heimi fyrir það eitt að vilja gefa sveltandi fólki mat. Deyjandi fólki læknisaðstoð.“
Hann lýsir Möggu sem manneskju með „akkúrat þetta hugrekki í bunkum“ og vitnar í orð eiginkonu sinnar: „Beggó segir stundum við börnin okkar að hugrekki sé ekki það að vera aldrei hrædd, heldur að gera eitthvað ÞRÁTT FYRIR AÐ þú sért hrædd. Það er Magga að gera.“
Bragi viðurkennir eigin ótta og segir að hann hafi ekki sjálfur haft tækifæri eða kjark til að stíga um borð: „Það sem ég þorði ekki. Fara um borð í bát sem ekki er vitað hvort komist óskaddaður á áfangastað. Hvers flestir áhafnarmeðlimir verða handteknir, hugsanlega beittir ofbeldi.“
Hann lýsir ástandinu stutt og skýrt: „Ástandið er alls ekki flókið. Það er verið að fremja þjóðarmorð. Svelta og sprengja saklausa borgara.“ Bragi gagnrýnir einnig þá sem tala öðru máli: „Fólk sem segir eitthvað annað er annað hvort að ljúga að þér eða bergmála lygar.“
Í færslunni skorar hann á íslensk stjórnvöld að sýna hugrekki og styðja Möggu Stínu: „Ég vona svo sannarlega að íslensk stjórnvöld finni hugrekkið til þess að standa með henni - þó það geti kostað vandræðaleg augnablik á leiðtogafundum og uppnám alþjóðlegra viðskiptasamninga.“ Hann lýkur með yfirlýstum stuðningi: „Lifi frjáls Palestína.“
Komment