Reykjavíkurborg biðlar til borgarbúa að gefa ekki öndunum í tjörninni við ráðhús borgarinnar brauð. Ástæðan er sú að litrík brák hefur myndast í tjörninni.
Samkvæmt borginni myndaðist brákin vegna þess að ákveðnir blágrænir þörungar eða gerlar fjölga sér of hratt og mynda blóma, sem byrjar sem grugg en endar sem skán sem flýtur ofan á vatninu. Þess er óskað að á meðan þessu stendur, gefi fólk alls ekki öndunum brauð þar sem ekki er skynsamlegt að bæta við meira magni af lífrænum efnum út í Tjörnina.
„Fyrirbærið kallast ofauðgun og gerist vegna þess að magn næringarefna verður of mikið. Um er að ræða þekkt ástand í stöðuvötnum á sumrin en er ekki ákjósanlegt. Líkurnar á þessu eru sérstaklega miklar þegar hitastig vatnsins hækkar á hlýjum og sólríkum dögum og þegar vatnsblöndun er lítil vegna hægs rennslis,“ segir í tilkynningu frá borginni.
Þá segir borgin að sterk lykt geti verið af brákinni. Hún er ekki talin hættuleg en fólki er ráðlagt að vera ekki að snerta hana að óþörfu.

Komment