
Tveimur sleðamönnum var bjargað af Slysavarnarfélaginu Landsbjörg í nótt en greint er frá þessu í tilkynningu frá félaginu.
Sleðamennirnir voru fastir upp á Langjökli rétt við fjallið Klakka. Mennirnir voru vel búnir og ekki taldir vera í hættu en óskuðu aðstoðar við losa sleða sína, sem voru fastir.
Fyrstu björgunarsveitarmenn komu að mönnunum klukkan 3 í nótt en beiðni um aðstoð hafði komið rétt upp úr miðnætti. Var mönnunum fylgt til byggða þar sem snjósleðar þeirra voru nærri bensínlausir.
Í sömu tilkynningu er sagt frá því að fiskibátur hafi óskað eftir aðstoð í nótt en sá var staddur norður af Hornbjargi. Óhapp hafði orðið í bátnum þegar olía fór af stýrikerfi hans og hann því stjórnlaus. Þó var veður ágætt og ekki talin mikil hætta á ferðum.
Björgunarskipið Gísli Jóns kom að fiskibátnum til að draga hann en stoppa þurfti dráttinn vegna þess að einn þáttur dráttartaugar slitnaði. Stefnan er sett á Ísafjörð en ekki liggur fyrir hvenær skipin koma í höfn þar.
Komment