
Bjarni Benediktsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, opnaði sig rækilega upp á gátt í viðtali við Sumarhúsið og garðinn en þar ræðir hann garðyrkjuáhuga sinn en óhætt er að segja að formaðurinn fyrrverandi sé með græna fingur.
„Þóru finnst það nú svolítið sniðugt hvað ég get gleymt mér hérna úti. Ég hef haft mjög gaman af þessu,“ segir Bjarni um næturbrölt sitt úti í gróðurhúsi. „Hún skilur ekkert í því hvaðan ég fékk þennan áhuga og hlær að því,“ heldur Bjarni áfram.
„Sko, það er nú stutt fyrir mig að hlaupa út um svefnherbergisdyrnar í gróðurhúsið. Ég var oft að fara um miðjar nætur á vorin, þegar ég hafði áhyggjur af hitastiginu eða þegar það kom t.d. upp blaðlús í húsinu hjá mér,“ segir formaðurinn fyrrverandi. „Þá var ég með meiri háttar áhyggjur.“
Það er þó einn hlutur sem eiginkona hans hefur haft meiri ánægju af en af öðrum hlutum. „Það sem hefur svona skemmt konunni minni mest er þegar hún finnur mig klukkan þrjú á nóttunni á nærbuxunum hérna úti í gróðurhúsi að athuga hvort það sé blaðlús á plöntunum eða hvort það hafi kólnað of mikið.“
Komment