
Global Sumud Flotilla (GSF) hefur staðfest að aðalbátur flotans, Family Boat með meðlimum hópsins, þar á meðal umhverfisaðgerðasinnanum Gretu Thunberg, hafi orðið fyrir árás sem grunur leikur á að hafi verið gerð með dróna.
„Báturinn var undir portúgölskum fána og allir farþegar og áhöfn eru óhult,“ segir í færslu GSF á samfélagsmiðlum.
Hreyfingin bætti við að rannsókn væri hafin, en að „árásir“ muni ekki fæla flotann frá meginmarkmiði sínu, sem er að koma hjálpargögnum til Gaza.
Sakar Ísrael um árásina
Saif Abukeshek, palestínskur aðgerðasinni og meðlimur í stýrihópi GSF (Gaza Solidarity Flotilla), sakar Ísrael um að hafa gert árás á skip flotans, Family Boat.
„Það er engin önnur yfirvöld sem gætu staðið að slíkri árás, slíku glæpaverki, nema ísraelsk yfirvöld. Þau hafa framið þjóðarmorð síðustu 22 mánuði og þau eru tilbúin að ráðast á friðsaman, ofbeldislausan flota,“ sagði hann í myndbandi sem birt var á opinberum Instagram-síðu GSF.
Abukeshek bætti við að þátttakendur flotans væru staðráðnir í að halda áfram þrátt fyrir árásina.
„…við höldum áfram með okkar verkefni. Við munum halda áfram undirbúningi um leið og við erum viss um að skipin séu örugg og áhöfnin og þátttakendur í lagi,“ sagði hann.
„Við munum halda áfram að brjóta umsátrið um Gaza.“
Ónafngreindur meðlimur flotans sagði í öðru myndbandi á Instagram að sex manns hefðu verið um borð í Family Boat þegar drónaárásin átti sér stað og að tveir þeirra hefðu verið sofandi nærri þeim stað sem sprengingin varð.
„Sönnunargögnin sem við höfum tiltæk, þó þau séu takmörkuð að svo stöddu, benda til þess að um hafi verið að ræða íkveikjutæki sem notað var gegn skipinu og olli eldi sem logaði í um fimm til sex mínútur,“ sagði konan.
„Áhöfnin um borð náði blessunarlega að slökkva eldinn sjálf. Sem betur fer slasaðist enginn,“ bætti hún við.
Francesca Albanese, sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna í málum Palestínu, sagði í viðtali frá Túnis að árásin þyrfti að rannsaka nánar, en að hún væri hluti af „sögu árása á flotann“. Hún benti á að Ísrael hefði ítrekað hótað flotanum.
„Ef staðfest verður að þetta hafi verið drónaárás, þá er um að ræða árás og árásargirni gegn Túnis og fullveldi Túnis,“ sagði Albanese.
Túnis neitar drónaárás
Talsmaður þjóðvarðaliðs Túnis sagði hins vegar við AFP að rannsókn sýndi að eldurinn hefði kviknað í björgunarvestum um borð.
„Samkvæmt fyrstu niðurstöðum kviknaði í björgunarvestum á skipi sem lá við akkeri 80 km frá Sidi Bou Said og hafði komið frá Spáni,“ sagði Houcem Eddine Jebabli.
„Engir drónar hafa fundist á svæðinu,“ bætti hann við.
Í yfirlýsingu á Facebook sagði öryggisstofnunin að fregnir af drónaárás væru „algjörlega ástæðulausar“ og að eldurinn hefði líklega kviknað út frá kveikjara eða sígarettustubbi.
Myndefni sýnir árásina
GSF birti hins vegar svart-hvítt myndband frá öðru skipi í flotanum sem sýnir augnablikið þegar Family Boat varð fyrir höggi að ofan. Í myndbandinu sést einhverskonar íkveikjutæki falla á skipið, valda sprengingu og eldi. Myndefnið hefur verið staðfest af Sanad-staðreyndateymi Al Jazeera.
Aðgerðasinni um borð kvaðst einnig hafa séð dróna sveima yfir skipinu áður en hann sleppti því sem hann kallaði sprengju.
Samkvæmt GSF olli eldurinn tjóni á aðaldekki skipsins og í geymslum undir þilfari. Á Instagram birtu þau einnig myndband sem sýndi sviðna veggi og gólf.
„Árásir sem ætlað er að hræða okkur og koma í veg fyrir verkefni okkar munu ekki fæla okkur frá. Friðsælt verkefni okkar til að brjóta umsátrið um Gaza og sýna samstöðu með fólki þar heldur áfram af ákveðni og staðfestu,“ sagði hópurinn.
Hér fyrir neðan má sjá myndskeið frá árásinni
Komment