
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði samband við barnaverndaryfirvöld í gærkvöldi eftir að einstaklingur á barnsaldri var handtekinn í kjölfar líkamsárásar í Reykjavík.
„Sökum aldurs grunaða var haft samband við foreldra og barnaverndaryfirvöld og málið unnið með þeim,“ segir í tilkynningu lögreglu.
Lögreglan var kölluð til vegna sex annarra líkamsárása eða slagsmála á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Þá voru fjórir meintir gerendur hýstir í fangaklefa eftir átökin.
Ótengt þeim málum féll maður í jörðina og fékk sár í andliti. Sá var fluttur á bráðamóttöku.
Ölvaður einstaklingur var til vandræða í verslun í miðbænum en var vísað út og hélt sinn veg.
Auk þess er grunur um að kveikt hafi verið í bifreið í Hafnarfirði.
Komment