
Dagsektir upp á 50.000 krónur á dag hafa legið á Auto ehf. frá 28. október 2024 vegna óleystra mála á lóð fyrirtækisins að Setbergi á Svalbarðsströnd. Upphæðin er nú komin yfir 16 milljónir króna, samkvæmt fundargerð Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra frá 17. september. Frá þessu segir akureyri.net.
Þann dag höfðu liðið 325 dagar frá því sektirnar tóku gildi, sem jafngildir 16.250.000 krónum að meðtöldum vöxtum og innheimtukostnaði. Dagsektirnar hækka enn um 50 þúsund krónur á dag þar til nefndin fær úrbætur. Í fundargerð segir jafnframt að sektirnar hafi ekki verið greiddar og séu nú komnar í hefðbundið innheimtuferli með tilheyrandi kostnaði.
Heilbrigðisnefndin ítrekar í bókun sinni kröfu um tafarlausa tiltekt á lóðinni. Þar er einnig harðlega gagnrýnt að Auto ehf. hafi ítrekað komið fyrir númerlausum bifreiðum, mörgum í mjög slæmu ásigkomulagi, bæði á almenningslóðum og einkalóðum innan bæjarmarka Akureyrar. Slík háttsemi sé óásættanleg og í andstöðu við lög og reglur um hollustuhætti, mengunarvarnir og umhverfismál.
Komment