
Opinn íbúafundur mun verða haldinn í Borgarnesi í næstu viku vegna yfirstandandi skjálftavirkni í Ljósufjallakerfinu.
Komið hefur fram að mikil skjálftavirkni hefur verið við Grjótárvatn í um það bil eitt ár - hafa mælst rúmlega 800 skjálftar þar í sumar.
Er svo komið að almannavarnanefnd Vesturlands telur þörf áþví að halda opinn íbúafund á miðvikudag, í þeim tilgangi að ræða yfirstandandi skjálftavirkni við Grjótárvatn í Ljósufjallakerfinu.
Talsverð jarðskjálftavirkni hefur mælst í Ljósufjallakerfi í ár, og fylgjast jarðvísindamenn vel með henni, en um það bil 350 skjálftar mældust við Grjótárvatn í júlí síðastliðnum, samkvæmt Veðurstofu Íslands. Stærsti skjálftinn var 3,3 að stærð, en meira en 450 skjálftar mældust í júní síðastliðnum.
Meiri virkni hefur mælst í Ljósufjallakerfinu eftir að jarðhræringar og eldsumbrot hófust á Reykjanesskaga fyrir fimm árum síðan.
Veðurstofan telur að rekja megi skjálftavirknina til kvikuhreyfinga á miklu dýpi, eða um 16 til 18 kílómetra pg þá hefur vöktun og rannsóknir á svæðinu verið auknar, til dæmis með nýjum jarðskjálftamæli sem og nýjum GPS-mæli.
Aukin skjálftavirkni í Ljósufjöllum gæti mögulega verið undanfari eldgoss og því vilja allir aðilar vera vel viðbúnir ef í brýnu slær við náttúruöflin.
Íbúafundurinn áðurnefndi verður haldinn í Hjálmakletti í Borgarnesi á miðvikudaginn klukkan 16:30 og þar verða fulltrúar ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á Vesturlandi og sveitarfélaga á Vesturlandi, auk sérfræðinga frá Veðurstofu Íslands, Náttúruhamfaratryggingu Íslands og Neyðarlínunni.
Og vonandi verður líka fullt hús því erindið er brýnt fyrir íbúana.
Komment