
Áströlsk yfirvöld rannsaka nú mál þar sem að 80 ára kona, sem skilin var eftir á eyju nærri Stóra kóralrifinu, fannst látin. Hún hafði verið farþegi á skemmtiferðaskipi.
Konan hafði verið í gönguferð á Lizard Island, um 250 kílómetra norður af Cairns, ásamt öðrum farþegum af skemmtiferðaskipinu Coral Adventurer á laugardag. Talið er að hún hafi ákveðið að hætta við gönguna til að hvíla sig.
Skipið lagði af stað frá eyjunni um sólarlag, en sneri aftur nokkrum klukkustundum síðar þegar áhöfnin áttaði sig á að konuna vantaði. Stór leitaraðgerð hófst og fannst lík hennar á sunnudagsmorgun.
Ástralska sjóöryggisstofnunin (AMSA) sagði að málið væri til rannsóknar og að fulltrúar stofnunarinnar myndu hitta áhöfnina þegar skipið kæmi til Darwin síðar í vikunni.
Talsmaður AMSA sagði að stofnunin hefði fyrst fengið tilkynningu um konuna um kl. 21:00 á laugardag að staðartíma (11:00 GMT) frá skipstjóranum.
Stofnunin sagðist munu vinna með öðrum viðeigandi aðilum að rannsókninni og að hún tæki öryggi farþega og áhafnar á farþegaskipum mjög alvarlega.
Mark Fifield, forstjóri Coral Expeditions, sagði að starfsfólk væri í sambandi við fjölskyldu konunnar og byði fram stuðning vegna „þessa harmleiks“.
„Þó svo að rannsókn málsins haldi áfram er okkur mjög þungbært að þetta hafi gerst og við veitum fjölskyldu konunnar alla okkar hjálp,“ sagði Fifield.
Samkvæmt Courier Mail var konan á göngu upp á hæsta tind eyjunnar, Cook’s Look, en ákvað að staldra við og hvíla sig.
Traci Ayris, sem sigldi nálægt eyjunni um helgina, sagði í viðtali við ríkisútvarpið ABC að hún hefði séð þyrlu leita með kastljósi yfir göngustíg um miðnætti á laugardag.
Hún sagði að um sjö manns með vasaljós hefðu farið til eyjarinnar til leitar, en henni hefði verið hætt um klukkan 03:00 að staðartíma. Þyrla hefði síðan snúið aftur á sunnudagsmorgun þegar líkið fannst.
„Við vissum að hún væri látin því þau kölluðu alla leitarmennina strax til baka,“ sagði hún við ABC.
„Og enginn fór að þeim stað þar sem þyrlan sveimaði fyrr en síðar um daginn þegar lögregla mætti á vettvang.“
Ayris sagði atburðinn greinilega hafa haft mikil áhrif á áhöfn og farþega.
„Þetta var mjög sorglegt, það er hræðilegt að svona harmleikur eigi sér stað á svo fögru svæði. Þetta átti að vera ánægjustund fyrir þessa elskulegu konu.“
Talið er að konan hafi verið í fyrstu viðkomu á 60 daga siglingu umhverfis Ástralíu, þar sem miðaverð fyrir ferðina nemur tugum þúsunda dollara.
Samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins getur Coral Adventurer tekið allt að 120 gesti og er með 46 í áhöfn. Skipið var sérstaklega hannað til að komast inn á afskekkt svæði meðfram strönd Ástralíu og er búið litlum bátum („tenders“) til dagsferða farþega.
Lögreglan í Queensland sagði að skýrsla yrði gerð fyrir réttarmeinafræðing vegna „skyndilegs og ógrunsamlegs“ andláts konunnar.

Komment