
Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur lengi haft trú á Donald Trump Bandaríkjaforseta og miðlað ágæti hans til lesenda Morgunblaðsins.
Í leiðara Morgunblaðsins í dag, sem hann ritstýrir, tekur hann undir ásakanir Trumps gegn Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Trump hefur sett saman verkefnahóp til að rannsaka Obama og meðal annars sýnt gervigreindarmyndband af handtöku hans og fangelsun. Viðbrögðin í Hádegismóum eru að fara fram á afsökunarbeiðni frá Obama.
Leiðarhöfundur Morgunblaðsins segir að Obama hafi „hiklaust notað leyniþjónustur ríkisins til árása á réttkjörinn 45. forseta landsins“. Vísar þar til rannsókna á áhrifum Rússa á bandarísku forsetakosningarnar 2016.
„Eftir langa tíð var kominn tími á 44. forsetann að biðjast fyrirgefningar! Hann var í forsæti ríkisstjórnar sem réttlætti yfirgengilega fölsun og gróf undan lýðræðislegum eftirmanni. Hvers vegna baðst hann ekki fyrirgefningar á því sem gerðist?“ segir í leiðaranum.
Morgunblaðið hefur hins vegar ekki haft sömu áhyggjur af Trump. Eftir að hann æsti upp múg með ósönnum yfirlýsingum um kosningasvindl, til þess að gera aðsúg að þinghúsinu í Washington í janúar 2021, fjallaði leiðari Morgunblaðsins um að Trump hefði verið lagður í einelti og að hann væri „dáðasti maður Bandaríkjanna“.
Komment