
Ásgerður Sverrisdóttir læknir lést á krabbameinsdeild Landspítalans sunnudaginn 13. júlí síðastliðinn, 63 ára að aldri.
Ásgerður fæddist í Reykjavík 1. mars 1962. Foreldrar hennar voru Sverrir Erlendsson skipstjóri og Dóra Bergþórsdóttir húsmóðir.
Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1981 hóf hún nám í læknisfræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 1989. Hún hlaut almennt lækningaleyfi hérlendis árið 1992 og í Svíþjóð tveimur árum síðar. Sérfræðileyfi í krabbameinslækningum fékk hún í Svíþjóð árið 1998 og starfaði um árabil við Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi, þar sem hún lauk einnig doktorsprófi frá Karolinska Institutet árið 2012.
Frá árinu 2005 starfaði Ásgerður sem krabbameinslæknir á Landspítalanum og lagði þar sitt af mörkum til meðferðar, rannsókna og menntunar. Hún sat í stjórn Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins frá árinu 2020 og var varaformaður stjórnar sjóðsins til dánardags. Einnig var hún varaformaður Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins frá 2014 til 2024 og var kjörin heiðursfélagi þess sama ár.
Ásgerður hafði mikinn áhuga á golfi frá unga aldri og átti glæsilegan feril í íþróttinni. Hún varð Íslandsmeistari í kvennaflokki árin 1983 og 1984 og síðar Íslandsmeistari í öldungaflokkum. Hún var í fremstu röð innan Golfklúbbs Reykjavíkur og var um árabil fastamaður í íslenska kvennalandsliðinu í golfi.
Eiginmaður Ásgerðar var Steinn Auðunn Jónsson læknir. Eignuðust þau synina Sverri og Axel, og stjúpsonur Ásgerðar er Hákon, sonur Steins.
Komment