Aron Pálmarsson er gestur í nýjasta hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar en þar fer Aron yfir stærstu sigrana og erfiðustu ósigrana á ferlinum og þar er fyrst og fremst eitt mót sem situr í honum. Það eru Ólympíuleikarnir árið 2012.
„Þetta situr ennþá í mér í dag. Þegar ég lít til baka á landsliðsferilinn þá eru ákveðin vonbrigði þó að við höfum náð þarna þriðja sæti og medalíu 2010, en ég ætlaði mér alltaf að ná í fleiri medalíur. Við vorum í mesta sénsinum frá 2011-2013. Væntingarnar frá þjóðinni voru ekkert brjálaðar fyrir mótið og við sjálfir vorum líka alveg jarðtengdir. En við fundum það og sáum fyrir mótið að við vorum með raunverulegan möguleika á að vinna þetta mót. Fókusinn var rosalegur og það sást alveg í riðlakeppninni þegar við unnum bæði Frakka og Svía í riðlinum okkar. Eftir þá sigra fann maður alveg að væntingarnar hjá íslensku þjóðinni ruku upp. Við unnum riðilinn og mættum svo Ungverjum í átta liða úrslitum, sem voru auðvitað mjög sterkir þó að þeir hafi verið í fjórða sæti í sínum riðli. Ég hef aldrei horft á þennan leik aftur, en í minningunni var þetta mjög jafnt allan tímann, en tilfinningin var alltaf að við myndum svo taka þetta í lokin. En svo klúðrum við víti í blálokin og þeir fara beint upp og skora og svo bara töpum við leiknum og mótið búið. Ég man að ég raunverulega trúði þessu ekki í nokkra daga á eftir,“ segir Aron og heldur áfram.
„Svo gerði það þetta ekki auðveldara að Svíar og Frakkar mættust í úrslitum, hvoru tveggja lið sem við vorum nýbúnir að vinna. Ég mun aldrei horfa á þennan leik og þar af leiðandi aldrei leikgreina þetta neitt nánar. Ég held að enginn í liðinu hafi horft á þennan leik aftur og muni ekki gera. Þegar við hittumst, þá ræðum við þetta aldrei og ef einhver kemur að okkur til að tala um þetta skiptum við bara um umræðuefni. Þetta voru klárlega stærstu vonbrigðin á ferlinum og situr rosalega í manni.“
Komment