Aðstæður barna og fjölskyldna þeirra á Gaza eru nú orðnar „hamfarakenndar“, samkvæmt Rachel Cummings, mannúðarmálastýru Save the Children. Í samtali við Al Jazeera frá Deir el-Balah í miðhluta Gaza lýsir hún samfélagi á barmi hungursneyðar þar sem engin viðunandi mataraðföng eru lengur til staðar.
„Allir á Gaza eru orðnir svangir núna,“ sagði hún. „Ég sé börn ganga um með tóma skálar, leita að mat og vatni. Það er algjör örvænting hér.“
Að sögn Cummings eru sífellt fleiri börn í næringarúrræðum samtakanna sem þjást af vannæringu, og sama gildir um þungaðar konur og mæður með börn á brjósti. Hún segir jafnvel teymi sitt, sem vinnur að hjálparstarfi á svæðinu, vera farið að sýna merki næringarskorts, þau sjálf geti ekki útvegað sér mat á mörkuðum.
Á sama tíma hefur heilbrigðisráðuneyti Palestínu greint frá því að 15 manns hafi látist af völdum hungurs og vannæringar síðastliðinn sólarhring, þar af fjögur börn. Alls hafa 101 manns látist úr hungri í þjóðarmorðinu, þar af 80 börn, frá því að Ísrael hóf árásir sínar á Gaza í október 2023.
Ástandið versnar stöðugt í kjölfar lokunar á aðflutningsleiðum og takmarkaðrar hjálpar sem kemst inn í svæðið. Mannúðarsamtök hvetja alþjóðasamfélagið til tafarlausra aðgerða til að bregðast við yfirvofandi hungursneyð og vernda þau sem verst standa.
Komment