Það fór eflaust ekki framhjá mörgum Íslendingum umræða sem skapast í kjölfar þess að Sigríður Dögg Arnardóttir, betur þekkt sem Sigga Dögg, hélt kynlífsfræðslu í fermingarfræðslu á Akureyri fyrir stuttu eftir að eitt foreldri kvartaði undan málinu.
Kölluðu sumir landsmenn fræðsluna dómgreindarleysi og fannst hún ekki eiga heima í fermingarfræðslu. „Ég ætla ekki að taka undir að þetta hafi verið dómgreindarleysi. Þetta var úthugsuð fræðsla, það lá alveg fyrir hvert efni fræðslunnar var og við fórum ekkert leynt með það,“ segir Sindri Geir Óskarsson, annar sóknarprestur Glerárkirkju, um gagnrýni á kirkjuna, við Heimildina.
Nú hefur Akureyrarbær ákveðið að halda fyrirlestur fyrir foreldra í bænum og nefnist fyrirlesturinn Hvernig á ég að ræða við unglinginn minn um kynlíf?
„Börn og foreldrar þurfa að ræða saman um kynlíf, eins og hvern annan málaflokk. Skoðanir og gildi foreldra gagnvart kynlífi eru börnum og unglingum nauðsynlegt mótvægi við þeim misvísandi og villandi upplýsingum sem þau hafa greiðan aðgang að,“ segir meðal annars um viðburðinn.
„Kynfræðsla og opinská umræða um kynlíf skilar sér því í aukinni þekkingu og meðvitaðri ákvörðunartöku ungs fólks um kynlíf.“
Fyrirlesturinn fer fram í kvöld í Lundarskóla á Akureyri.


Komment