
„Þetta verður stór pakki með nýjum aðgerðum,“ sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar á flokksstjórnarfundi hennar í dag, en hún vill loka glufum og draga úr undanþágum í skattkerfinu.
Kom fram í máli Kristrúnar að ríkisstjórnin hafi sett saman húsnæðis- og efnahagspakka er felur til að mynda í sér markvissari húsnæðisstuðning sem og meiri uppbyggingu:
„Þetta verður stór pakki með nýjum efnahagsaðgerðum sem virkilega munar um og ýmiss konar aðgerðum í húsnæðismálum sem fela í sér tiltekt sem vinnur gegn þenslu, markvissari húsnæðisstuðning, meiri húsnæðisuppbyggingu með aukinni skilvirkni og fyrirsjáanleika,“ sagði Kristrún, líkt og kom fram á RÚV.
Telur Kristrún að í pakkanum séu atriði sem fela meðal annars í sér skilvirkni og fyrirsjáanleika; einföldun regluverks og ýmsar aðgerðir til að þess að draga úr hvata til að fjárfestingarvæða íbúðir.
Í máli Kristrúnar kom fram að nú ætti að loka glufum og draga úr undanþágum í skattkerfinu:
„Þetta kemur til viðbótar við endurflutt frumvörp frá vorþingi um að taka á Airbnb-útleigu og koma á betri yfirsýn og sanngjarnari reglum með skráningarskyldu á leigumarkaði“ sagði Kristrún og bætti því við að ríkisstjórnin hafi gengið hratt og örugglega til verka; en hins vegar þurfi að gera meira hraðar til að vinna niður vexti og verðbólgu og lækka þar með kostnað heimila og fyrirtækja í landinu.
Hún færði í tal að kosningasigur í þingkosningunum í fyrra hefði markað alveg nýtt upphaf fyrir Samfylkinguna og einnig þjóðina sjálfa því flokkurinn hafi aldrei verið jafn sterkur, stamstilltur og vel staðsettur og nú; Samfylkingin væri meira en tilbúin í sveitastjórnarkosningar:
„Víða á Vesturlöndum hafa sósíaldemókratar verið að sigra í kosningum og vinna endurkjör. Það er sveifla alþjóðlega gegn ysta hægrinu, sem elur á sundrungu, með klassískri jafnaðarstefnu sem keyrir á samstöðu.“
Komment