
Undanfarna mánuði hefur mikið verið fjallað um stöðuna í menntamálum á Íslandi. Telja sumir stöðuna vera mjög slæma og vísa til árangurs Íslands í hinum alþjóðlegu PISA-könnunum sem gerðar eru með reglulega millibili og þá hefur umræða um samræmd próf fengið talsverða athygli í tíð núverandi ríkisstjórnar.
Lítið hefur hins vegar verið fjallað um stöðu heimakennslu í grunnskólastigi á Íslandi en einhverjir foreldrar hafa lýst því yfir á samfélagsmiðlum á undanförnum árum að þeir hafi misst trú á skólakerfinu og vilji fá að mennta börn sín sjálf.
Mannlíf hafði samband við Mennta- og barnamálaráðuneytið til að spyrjast fyrir um ýmislegt innan þess kerfis og stöðu þess í dag. Í svari ráðuneytisins kemur fram að það hafi ekki aðkomu afgreiðslu á beiðnum um heimakennslu heldur sé það í höndum sveitarfélaga. Þeim sé hins vegar skylt að tilkynna ráðuneytinu um veitingu á slíkum leyfum. Samkvæmt ráðuneytinu eru aðeins tvö börn sem hafa verið í heimakennslu á yfirstandandi skólaári.
„Börnin sem eru systkini voru bæði í heimakennslu á síðasta skólaári og annað þeirra hefur verið í heimakennslu sl. þrjú ár. Ráðuneytinu er ekki kunnugt um fleiri tilvik á grunnskólastigi sem falla undir lagaákvæði og reglugerð um heimakennslu.“
Ráðuneytið tekur þó fram að því berist reglulegar fyrirspurnir um heimakennslu og möguleika foreldra á annast kennsluna.
„Hins vegar eru mjög strangar kröfur gerðar til foreldra, t.d. að a.m.k. annað foreldrið hafi kennsluréttindi sem er í fæstum tilvikum til staðar. Ráðuneytinu er einnig kunnugt um að sveitarfélög hafa fengið fyrirspurnir frá foreldrum eða óskir um heimakennslu en slíkum erindum er yfirleitt hafnað án frekari skoðunar þegar ljóst er að skilyrði eru ekki fyrir hendi.“
Mannlíf spurði sérstaklega út í fjölda barna sem hefur notið heimakennslu undanfarin áratug en ráðuneytið gat ekki svarað því en staðfesti þó að um mjög fá tilvik væri að ræða. „En dæmi eru um að foreldrar hafi óskað eftir að fá að kenna börnum sínum heima vegna tímabundinnar búsetu erlendis, en lög um grunnskóla ná ekki yfir slíkt,“ sagði í svari ráðuneytisins að lokum.
Komment