
Á næstu mánuðum mun Rauði krossinn á Íslandi fá afhenta 25 nýja sjúkrabíla en greint er frá því í fréttatilkynningu frá Rauða Krossinum.
Um er að ræða sautján Van-sjúkrabíla eins og þegar þekkjast á götum landsins og átta svokallaða Box-bíla, þ.e. sjúkrabíla með kassa. Er þetta í fyrsta sinn sem Box-bílar eru keyptir hingað til lands í kjölfar útboðs.
Að sögn Rauða Krossins hefur verið samið hefur Fastus ehf. um kaupin á bílunum 25 með möguleika á að kaupa aðra 25 til viðbótar. Fjársýsla ríkisins hafði umsjón með útboðinu, sem auglýst var á öllu evrópska efnahagssvæðinu. Bifreiðarnar verða smíðaðar hjá BAUS AT í Póllandi sem hefur smíðað sjúkrabíla fyrir Rauða krossinn undanfarin ár.
Rauði krossinn heldur utan um sjúkrabílaflota landsins en í því felst að félagið útvegar og annast innkaup á sjúkrabílum auk þess að reka þá sem og tækjabúnað til sjúkraflutninga.
„Með tilkomu Box-bíla er verið að mæta þörf fyrir betra rými og vinnuaðstöðu inni í sjúkrarýminu,“ sagði Marinó Már Marinósson, verkefnastjóri sjúkraflutninga hjá Rauða krossinum. „Nú verður hægt að sitja báðum megin við sjúkling inni í sjúkrarýminu þannig að aðgengi að sjúklingi verður mun betra meðan á flutningi stendur, ólíkt hefðbundnum sjúkrabílum þar sem rýmið er takmarkaðra.“
Komment